Lífið

DIY-hljómsveitin BSÍ stöðvaði umferðina

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Þau Sigurlaug Thorarensen og Julius Rothlaender skipa hljómsveitina BSÍ sem gaf út sína fyrstu plötu á föstudag.
Þau Sigurlaug Thorarensen og Julius Rothlaender skipa hljómsveitina BSÍ sem gaf út sína fyrstu plötu á föstudag.

Við bjuggumst við meiri upplausn og reiði en fólkið var reyndar aðallega hissa og skildi ekki alveg hvað var í gangi og varð kannski smá pirrað yfir því að einhver væri að reyna að trufla heilögu umferðina,“ segja þau Sigurlaug Thorarensen, sem spilar á trommur og syngur, og Julius Rothlaender, sem plokkar bassann í hljómsveitinni BSÍ.

Myndbandið við fyrsta lag hljómsveitarinnar hefur vakið nokkra athygli en þar standa þau Sigurlaug og Julius á gangbrautinni á Hringbraut og stöðva þannig umferð. Myndbandið er ekkert sérstaklega flókið. Þau standa bara þarna og stoppa umferð. Sífellt bætist við bílaflotann sem tefst þær mínútur sem lagið er.

„Hljómsveitin heitir BSÍ meðal annars vegna þess að við erum sérstaklega áhugasöm um umferðarmenningu. Okkur finnst til dæmis bílamenningin og bílafíknin á Íslandi svolítið spes og umhugsunarverð. Með myndbandinu og gjörningnum erum við að reyna að varpa ljósi á hvað það er í raun hlægilegt að í smáborg eins og Reykjavík, þar sem tiltölulega fáir búa sé mjög hátt hlutfall einkabíla – og það minnir okkur á kunnugleg kapítalísk munstur – fáir sem eiga margt.“

Þau segja að viðbrögð fólksins í bílunum hafi komið þeim svolítið á óvart. Hvað fólk var í raun bara rólegt og beið þolinmótt. Þau fengu svo eftirlitsmyndirnar frá vini sínum í lögreglunni.

Hljómsveitin varð til því þau vildu prófa sig áfram og leika sér með ný hljóðfæri sem þau kynnu ekki á. „Ægir, vinur okkar, bauð okkur að vera í kjallararýminu hans í R6013 til að gera einmitt þetta. Við vorum eiginlega bara rétt byrjuð að leika okkur og áður en við vissum af vorum við komin með nokkur lög, sem við fengum síðan líka að taka upp í rýminu.“

Þau fóru í smá ferðalag til Berlín þar sem þeim bauðst að halda nokkra tónleika. Fyrsta plata þeirra kom svo út á föstudaginn á vegum Why Not? sem er DIY-plötuútgáfa í samstarfi við Tomatenplatten, sem er DIY-útgáfufyrirtæki í Berlín.

Myndbandið má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×