Erlent

Lík bresks auðmanns og eiginkonu hans fundust í Taílandi

Atli Ísleifsson skrifar
Lögreglumaður í Taílandi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Lögreglumaður í Taílandi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Lík breska auðmannsins Alan Hogg og eiginkonu hans Nod Suddaen fundust í morgun niðurgrafin á lóð í norðurhluta Taílands. Um vika er síðan að lögregla á svæðinu lýsti því yfir að líkur væri á að þau hafi orðið fórnarlömb leigumorðingja.

Lík þeirra Hogg og Suddaen, sem bæði voru 64 ára, fundust á niðurgrafin á lóð sinni í Phrae-héraði. Í frétt BBC er haft eftir lögreglu að Hogg hafi verið skotinn til bana, en Suddaen barin til bana með hamri. Tilkynnt var um hvarf þeirra í síðustu viku.

Þrír eru í haldi lögreglu vegna málsins, sakaðir um að hafa framkvæmt morðið að beiðni bróður Suddaen. Sá er einnig í haldi. Lögreglustjórinn Manas Kerdsukho segir ástæður morðanna vera langvinnar fjölskyldudeilur um fjármuni og eignir.

Mennirnir sem grunaðir eru um verknaðinn voru handteknir eftir að lögregla rakti slóð farartækis sem hafði verið á lóð fórnarlambanna til þeirra. Þeir viðurkenndu síðar að hafa banað þeim Hogg og Suddaen.

Hogg kom upprunalega frá Edinborg í Skotlandi og auðgaðist þegar hann rak fatahreinsunarkeðjuna Clayfull. Hann flutti til Taílands fyrir nokkrum árum þar sem hann hafði látið reisa þriggja hæða glæsihýsi ásamt konu sinni.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×