Aðalflugvöllur Grænlands í Kangerlussuaq, áður Syðri-Straumfirði, var lagður af Bandaríkjaher á stríðsárunum. Þar sem hann er fjarri helstu byggðum þjónar hann illa grænlensku samfélagi. Grænlendinga hefur því lengi dreymt um að byggja upp nýtt flugvallakerfi. Þar er lykilatriðið að höfuðstaðurinn Nuuk fái flugvöll sem geti tekið við farþegaþotum í millilandaflugi.
Flugbrautin þar er rétt við bæinn og aðþrengd og aðeins 950 metra löng. Áform grænlenskra stjórnvalda miða við að í stað hennar komi 2.200 metra löng flugbraut á sama stað, sem er álíka og Egilsstaðaflugvöllur.
Það hafa raunar einnig verið uppi hugmyndir um annað og betra flugvallarstæði á eyju úti fyrir Nuuk, sem gefur færi á tveimur 3.000 metra löngum flugbrautum, en það er sama stærð og Keflavíkurflugvöllur. Sú tillaga hefur þótt óraunhæf vegna kostnaðar enda þyrfti þá einnig neðansjávargöng og brýr til að tengja eyjuna við land.

Skyndilega sjá Grænlendingar nú fram á að geta fengið meira fé til flugvallagerðar en þeir áttu von á. Viðbrögðin má þegar sjá meðal grænlenskra þingmanna en einn flokkurinn, Samarbejdspartiet, hefur nú lagt til að Grænlendingar hugsi stærra og verði metnaðarfyllri í flugvallarmálum. Flokkurinn vill dusta rykið af eyjahugmyndinni og fá 3.000 metra flugbraut.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: