Erlent

Á þriðja tug látnir í skotárás í Íran

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Börn voru meðal fórnarlamba árásarninnar.
Börn voru meðal fórnarlamba árásarninnar. Vísir/AP
Að minnsta kosti 24 létust og 53 særðust í skotárás sem gerð var á hernaðarskrúðgöngu í borginni Ahvas í suðvesturhluta Íran. AP greinir frá þessu.

Samkvæmt IRNA, ríkisrekinni fréttastofu í landinu, voru árásarmennirnir klæddir í einkennisbúninga og dulbúnir sem verðir. Þá eiga þeir að hafa gert her- og lögreglumenn sem stóðu og fylgdust með skrúðgöngunni að skotmörkum sínum.

Að minnsta kosti átta meðlimir úr íranska hernum létust og 20 særðust. Samkvæmt írönskum yfirvöldum voru börn og blaðamenn einnig meðal þeirra sem létust í árásinni.

Utanríkisráðherra Írans, Mohammad Javad Zarif, hefur kennt öðrum mið-Austurlandaríkjum og „bandarískum drottnurum þeirra“ um árásirnar. Þá sagði hann á Twitter að Íran myndi „bregðast við fljótt og af ákveðni til varnar írönskum lífum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×