Erlent

Íslamistar hóta „hræðilegum afleiðingum“ ef kristin kona verður náðuð

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælendur krefjast þess að Asia Bibi verði hengd.
Mótmælendur krefjast þess að Asia Bibi verði hengd. Vísir/EPA
Pakistanskir íslamistar hafa hótað því að afleiðingarnar verði „hræðilegar“ ef kristinni konu sem dæmd var til dauða fyrir guðlast verður sýnd miskunn. Áfrýjun konunnar á dómnum verður tekin fyrir í hæstarétti landsins í dag.

Asia Bibi er fjögurra barna móðir sem var dæmd til dauða fyrir að hafa talað illa um íslam eftir ströngum guðlastslögum Pakistan árið 2010. Áfrýjun hennar til hæstaréttar er hennar síðasta.

Mál Bibi hefur vakið mikla athygli bæði innan og utan Pakistan. Tveir stjórnmálamenn sem reyndu að aðstoða hana voru myrtir, þar á meðal Salman Taseer, ríkisstjóri Punjab.

Tehreek-e-Labaik Pakistan-flokkurinn, flokkur harðlínuíslamista, hefur gert guðlast að einu helsta baráttumáli sínu. Flokkurinn hefur meðal annars lofsamað lífvörð Taseer sem myrti hann. Í yfirlýsingu hefur flokkurinn í hótunum um hvað gerist af hæstiréttur sýnir Bibi einhverja „tilslökun eða mildi“.

„Ef það verður einhver tilraun til að færa hana í hendur erlends ríkis verða afleiðingarnar hræðilegar,“ segir í yfirlýsingu flokksins að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Guðlast er mikið hitamál í Pakistan, svo mikið að nær ómögulegt er fyrir þá sem eru sakaðir um það að verja sig. Tugir manna sem sakaðir hafa verið um guðlast hafa verið drepnir án dóms eða laga af æstum múg.

Bibi hefur alltaf neitað ásökununum um guðlast. Hún var sökuð um að hafa lastað íslam þegar nágrannar hennar mótmæltu því að hún drykki úr glasi þeirra vegna þess að hún væri ekki múslimi. Lögmenn Bibi segja að hún hafi átt í ágreiningi við nágranna og að þeir hafi orðið margsaga um atvik mála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×