Hrútasýning var nýlega haldin í fjárhúsinu á bænum Þjóðólfshaga tvö í Holta og Landsveit hjá þeim Stefáni Þór og Þórhöllu Guðrúnu. Sveitungarnir mættu með bestu hrútana og gimbrarnar sínar í dóm hjá ráðunautum Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins. Spenna var í loftinu og bændur báru saman bækur sínar enda vilja allir fá háa dóma hjá dómurunum.
„Ég er að dæma veturgamlan hrút núna. Ég dæmi hann frá toppi til táar, ég mæli fótinn, ég athuga hvort höfuðið sé ekki í lagi, athuga háls og herðar, bringu og útlögur. Pétur Halldórsson, samstarfsmaður minn mælir hvað vöðvinn í hryggnum sé þykkur, kótelettanm og gefur honum einkunn fyrir lögun. Svo skoða ég malirnar á hrútunum og gef honum einkunn fyrir læri líka“, segir Guðrún Hildur Gunnarsdóttir ráðunautur hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins.
Hún segir ekki flókið að dæma hrúta og gimbrar en það kalli á mikla þjálfun.
„Samvinna við bændur gengur mjög vel og þetta er mjög gaman. Mér líst mjög vel á féð í haust, ég er búin að skoða fullt af flottum lömbum víða um land, þetta virðist ætla að koma ágætlega út“.
Bændurnir í Þjóðólfshaga tvö segja sauðfjárbúskap alltaf jafn gefandi og skemmtilegan þó þau vinni bæði aðra vinnu samhliða búskapnum.
„Við eru með með 350 vetrarfóðraðar. Þetta er ekki stórt bú en samt, maður verður að vinna með því fulla vinnu, þannig að þetta er alveg nóg“, segir Stefán Þór Sigurðsson, sauðfjárbóndi.

