Neytendastofa hefur sætt gagnrýni frá því að úrskurðurinn birtist, en gagnrýnendum þykja leiðbeiningar stofnunarinnar um auglýsingar af þessu tagi vera óaðgengilegar. Það gerðu til að mynda fyrrnefndir bloggarar í bréfum sínum til stofnunarinnar - og nú síðast Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri samfélagsmiðlastofunnar Sahara.
Leiðbeiningar sendar út
Í samtali við Morgunútvarp Rásar 2 sagði Davíð að reglur stofnunarinnar um auglýsingar áhrifavalda væru óskýrar, í raun hafi „enginn“ áhrifavaldur eða auglýsingastofa vitað hvernig ætti að stunda slíka markaðssetningu á réttan máta. Hann segist hafa gert dauðaleit að leiðbeiningum „um það hvernig maður eigi að haga sér sem áhrifavaldur eða auglýsingastofa. Það er ekkert til,“ sagði Davíð.Þórunn segir að leiðbeiningarnar hafi ætíð verið aðgengilegar á vef Neytendastofu og þá hafi stofnunin sent leiðbeiningarnar á fjölda fyrirtækja og einstaklinga sem starfi við markaðssetningu af þessu tagi. Þær má nú einnig nálgast hér neðar í fréttinni.
Gjöf = Greiðsla
Þórunn undirstrikar að Neytendastofa bannar ekki áhrifavaldamarkaðssetningu - það þurfi aðeins að standa rétt að henni. Ekki megi leika vafi á að vöruumfjallanir á samfélagsmiðlum eða bloggsíðum séu kostaðar með einhverjum hætti, sama hvort um sé að ræða gjöf frá fyrirtækjum eða að þegin hafi verið greiðsla fyrir umfjöllunina.Neytendastofa líti svo á að gjafir frá fyrirtækjum séu undir öllum kringumstæðum endurgjald. Hið sama megi segja um hvers kyns lán frá fyrirtækjum fyrir umfjöllun. Þórunn tekur dæmi af máli danskra áhrifavalda sem fengu bifreiðar að láni sem þeir svo dásömuðu án þess að taka fram að um samstarf við fyrirtæki væri að ræða. Það sé ekki leyfilegt, enda um endurgjald að ræða.
Það þurfi þannig lítið til svo að áhrifavöldum sé gert að merkja færslur sínar sem auglýsingar. Á bloggum, vefsíðum og samfélagsmiðlum þarf til dæmis að hafa eftirfarandi í huga:
- Ef greitt er fyrir eða annað endurgjald veitt fyrir að setja inn mynd af vöru/þjónustu þá þarf að merkja það sem auglýsingu.
- Ef viðkomandi fékk sendar vörur og skrifar um það þá þarf að merkja það sem auglýsingu.
- Það sama gildir ef fólk fær lánaðar vörur til þess að fjalla um í innleggi.
- Það sama gildir óháð því hvort viðkomandi hafði samband við fyrirtækið eða fyrirtækið hafði samband við viðkomandi.
- Það skiptir ekki máli að engin skylda sé til þess að skrifa um vöruna/þjónustuna eða að umfjöllunin lýsi raunverulegum skoðunum þess sem skrifar.
- Ef fyrirtæki starfrækir og rekur eigin vefsíðu, bloggsíðu eða prófíl á samfélagsmiðli þá þarf að koma skýrt fram að það sé fyrirtækið sem starfrækir og rekur vefsvæðið.
Verði að koma fram skýrt í upphafi
Þórunn segir að flestir flaski á því að taka ekki nógu snemma fram í færslunum að um kostaða umfjöllun sé að ræða. Það þurfi að koma fram í upphafi, þannig átti lesendur sig strax á því að um auglýsingu sé að ræða.Þar að auki megi ekki segja í upphafi, til dæmis, að tilteknar myndir séu teknar á ákveðna myndavél - en greina síðan ekki frá því fyrr en undir lokin að myndavélin hafi verið fengin að gjöf frá fyrirtækinu. Fyrirvararnir verði að haldast í hendur.
Í leiðbeiningum sínum leggur Neytendastofa til eftirfarandi merkingar fyrir innlegg af þessum toga:
- „Auglýsing“
- „Kynning“
- „Kostuð umfjöllun“
- „Unnið í samstarfi við (fyrirtækið X)“
- „Ég fékk þessa (skó) að gjöf frá (fyrirtækinu X)“
- „Þessi umfjöllun er styrkt af (fyrirtækinu X)“
- „Ég fæ borgað frá (fyrirtækinu X) fyrir þessa umfjöllun“
Þórunn segir að það sé einnig mikilvægt að merkja allar kostaðar færslur. Það sé þannig ekki nóg að merkja eina ljósmynd af tíu þegar fjallað sé um sama efni. Hafi áhrifavaldur til dæmis gert samstarfsamning við hársnyrtistofu þá þarf að merkja hvert innlegg um hársnyrtistofuna sem auglýsingu. Hið sama má segja um fatnað, fái áhrifavaldur gefins jakka frá fataverslun þá þarf það að koma fram fremst í hverju innleggi þar sem fjallað er um jakkann.
Leiðbeiningar Neytendastofu um auðþekkjanlegar auglýsingar má nálgast með því að smella hér.