Matur

„Rjóma“pasta með brokkolí, sveppum og feikoni

Gunnþórunn Jónsdóttir skrifar
Rjómapastað.
Rjómapastað.

Rjómapasta með brokkolí, sveppum og feikoni

Það eru einhverjir töfrar í góðu rjómapasta. Þetta pasta gefur ekkert eftir í rjómastemningu, það er safaríkt og ostakennt, með stökku feikoni (vegan beikoni) og ætti ekki að svíkja einn einasta pastaunnanda.

1 pakki pasta að eigin vali (helst ferskt)

Nokkrir sneiddir sveppir, gaman að nota blöndu t.d. af hvítum, portóbelló og kastaníu

4-5 sneiðar feikon

½ rauðlaukur

3 hvítlauksgeirar

Tamarí- eða sojasósa

Hálfur brokkolíhaus

Um hálf askja vegan rjómaostur (fæst t.d. í Hagkaupum og Krónunni)

1 teningur sveppa- eða grænmetiskraftur

Salt og pipar

Feikon

Hrísgrjónapappír

Sojasósa

Reykt paprikukrydd

Aðferð

Útbúum fyrst feikonið. Útbúið kryddlög í skál úr soja- eða tamarísósu og reyktu paprikukryddi. Ef extra mikill metnaður hleypur í ykkur má nota sósuna „liquid smoke“ sem meðal annars fæst í Hagkaupum, það er vökvi sem gefur sterkt reykjarbragð og er tilvalinn í feikongerð. Klippið hrísgrjónapappírinn í strimla, í hefðbundinni beikonstærð, og leggið í löginn, í 10-12 sekúndur. Komið fyrir á bökunarpappírsklæddri ofnplötu og bakið á 190°C í 6-8 mínútur. Úr þessu fást stökkir strimlar með sterku bragði.

Sjóðið því næst pasta samkvæmt leiðbeiningum. Hellið hitaþolinni ólífuolíu á pönnu og svissið laukinn, leggið til hliðar. Bætið olíu á pönnuna og léttsteikið brokkolí með ríkulegum skammti af salti og pipar, leggið til hliðar. Bætið enn á ný olíu á pönnu og steikið sveppi með dassi af tamarísósu og hvítlauk. Bræðið rjómaostinn í potti, brytjið kryddteninginn smátt og blandið saman við þar til hann hefur leyst upp og blandast. Komið pasta fyrir í stórri skál, hellið sósu út á, grænmetinu og loks söxuðu feikoni. Blandið vel saman. Gott er að strá söxuðum valhnetum eða steiktum sesamfræjum út á.

Athugasemd: Í þessa uppskrift er tilvalið að nýta kjúklingabaunasafa (aquafaba) til þykkingar. Þá skvettið þið örlitlu magni út í eftir að öllu hefur verið blandað saman.

Uppskrift:Guðrún Sóley Gestsdóttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×