Erlent

Evrópusambandið íhugar refsiaðgerðir gegn Búrma vegna ofsókna gegn róhingjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Landamæravörður í Búrma nærri flóttamannabúðum róhingja í Bangaldess. Hundruð þúsunda þeirra flúðu yfir landamærin undan ofsóknum stjórnarhers Búrma.
Landamæravörður í Búrma nærri flóttamannabúðum róhingja í Bangaldess. Hundruð þúsunda þeirra flúðu yfir landamærin undan ofsóknum stjórnarhers Búrma. Vísir/EPA

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skoðar nú að beita Búrma viðskiptaþvingunum vegna meðferðar þarlendra stjórnvalda á þjóðarbroti róhingjamúslima. Búrma gæti þannig misst aðgang að evrópskum mörkuðum.

Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildarmönnum sínum að skýrsla Sameinuðu þjóðanna þar sem her Búrma, stundum einnig þekkt sem Mjanmar, var sakaður um að hafa myrt róhingja með það fyrir augum að þurrka þá út hafi orðið framkvæmdastjórn ESB tilefni til að íhuga refsiaðgerðirnar. Hún vonast til þess að með þeim geti hún fengið stjórnvöld í Búrma til að láta af ofsóknum sínum í garð róhingja.

Talið er að refsiaðgerðirnar gætu kostað þúsundir manna starfið í Búrma, ekki síst í vefnaðariðnaði sem landið reiðir sig að miklu leyti á.

„Við höfum áhyggjur af áhrifum mögulega aðgerða okkar á þjóðina en við getum ekki hunsað skýrslu SÞ sem lýsir hernaðaraðgerð sem þjóðarmorði,“ hefur Reuters eftir einum evrópskum embættismanni.

Áður hefur ESB beitt ferðabönnum og fryst eignir nokkurra forsvarsmanna hers Búrma. Þær ná ekki til æðsta yfirmanns herafla landsins, Min Aung Hlaing herforingja, sem Sameinuðu þjóðirnar telja að ákæra ætti fyrir þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyninu ásamt fimm öðrum.

Stjórnvöld í Búrma hafa hafnað niðurstöðum skýrslu SÞ og kallað þær „einhliða“. Hernaðaraðgerðir þeirra í héraði róhingja hafi beinst að uppreisnarmönnum í kjölfar árása þeirra.


Tengdar fréttir

Saka Mjanmar um skipulögð ódæði

Ódæðin snúast meðal annars um fjöldamorð, nauðganir og pyntingar og hafa yfirvöld Mjanmar verið sökuð um þjóðarmorð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×