Erlent

Þúsundir minntu á sjálfstæðiskröfu Katalóna ári eftir þjóðaratkvæðisgreiðslu

Kjartan Kjartansson skrifar
La senyera, fáni sjálfstæðrar Katalóníu, var áberandi á samkomu sjálfstæðissinna í dag.
La senyera, fáni sjálfstæðrar Katalóníu, var áberandi á samkomu sjálfstæðissinna í dag. Vísir/EPA
Lögreglan í Barcelona áætlar að hátt í tvö hundruð þúsund manns hafi komið saman í borginni í gær til þess að minna á kröfu sína um sjálfstæði Katalóníu frá Spáni. Ár er nú liðið frá umdeildri þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var í Katalóníu.

Mótmælendur lokuðu umferðaræðum suður af Barcelona og hraðlestarlínu í katalónsku borginni Girona. Þá eru einhverjir þeirra sagðir hafa rifið niður spænska fánann við skrifstofur héraðsstjórnarinnar í Girona og dregið fána sjálfstæðrar Katalóníu að húni í staðinn, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Aðgerðirnar í gær voru á vegum samtaka sem kalla sig Varnarnefnd lýðveldisins sem krefjast sjálfstæðis frá Spáni í tilefni af því að ár er liðið frá því að Katalónar héldu þjóðaratkvæðisgreiðslu um sjálfstæði í trássi við vilja spænsku ríkisstjórnarinnar og úrskurð stjórnlagadómstóls landsins.

Katalónska héraðsstjórnin lýsti yfir sjálfstæði héraðsins í kjölfarið. Það leiddi til þess að spænska ríkisstjórnin leysti upp héraðsþingið og svipti Katalóníu sjálfstjórn tímabundið. Ríkisstjórnin skilaði héraðsstjórninni völdum í júní. Þar ráða þjóðernissinnar enn ríkjum. Quim Torra, forseti héraðsstjórnarinnar, lofaði mótmælendurna fyrir að halda uppi þrýstingi um sjálfstæði.

Síðustu skoðanakannanir benda til þess að naumur meirihluti Katalóna styðji sjálfstæði héraðsins, 46,7% gegn 44,9%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×