Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að aðlögunartími Bretlands eftir útgönguna úr Evrópusambandinu á næsta ári gæti dregist um einhverja mánuði. Sú hugmynd hafi verið rædd á samningafundum Breta og fulltrú sambandsins en ekki sé búist við að af henni verði.
Enn hefur ekkert gengið hjá Bretum og ESB að ná samkomulagi um hvernig samskiptum þeirra verður háttað eftir að Bretland gengur úr sambandinu í lok mars. Engin breyting varð á því á leiðtogafundi ESB í gær.
Gert hefur verið ráð fyrir að í kjölfar útgöngunnar taki við aðlögunartímabil þangað til í árslok 2020. May sagði í dag að hún hefði lagt fram tillögur til að leysa eitt helst ágreiningsmálið: hvernig landamærum Írlands og Norður-Írlands verður háttað eftir Brexit án þess að setja þurfi upp landamæra- eða tollahlið.
„Önnur hugmynd hefur komið fram, og þetta er hugmynd á þessu stigi, um að búa til möguleika á að framlengja innleiðingartímabilið um einhverja mánuði, og það væri aðeins spurning um mánuði,“ sagði May í morgun, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Engu að síður væri ekki gert ráð fyrir að til þess þyrfti að koma þar sem Bretar og ESB væru ákveðin í að ná samkomulagi um framtíðarsamband þeirra fyrir árslok 2020.
Ástandið í Íhaldsflokki May hefur verið eldfimt. May á sér marga gagnrýnendur í röðum Brexit-harðlínumanna sem krefjast þess að hún dragi Bretland út úr ESB án nokkurs samnings frekar en að láta undan kröfum ESB.
Viðbrögð þeirra við hugmynd May um lengri aðlögunartíma hafa verið neikvæð. Nick Boles, fyrrverandi ráðherra Íhaldsflokksins, lýsir hugmyndinni sem „örvæntingafullri lokatilraun“ sem gæti kostað May stuðning flokksmanna.
Aðlögunartími vegna Brexit gæti dregist á langinn

Tengdar fréttir

Tugir þingmanna Íhaldsflokksins sagðir tilbúnir að fella Brexit-samning May
Örlög mögulegs Brexit-samnings ríkisstjórnar Theresu May forsætisráðherra yrðu þá í höndum Verkamannaflokksins.

Hugmyndir um aukaleiðtogafund um Brexit í nóvember settar á ís
Fundi leiðtogaráðs ESB lauk í Brussel klukkan 20:30 í kvöld.

Fyrrverandi Brexit-ráðherra hvetur til uppreisnar
Átökin innan Íhaldsflokksins um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu halda áfram.

Forseti leiðtogaráðsins kveðst svartsýnn fyrir Brexit-fundinn
Forseti leiðtogaráðs ESB kveðst svartsýnn fyrir leiðtogafund um Brexit í dag. Fyrirkomulag landamæragæslu á Írlandi helsta áhyggjuefnið og pattstaða í viðræðum. Breski forsætisráðherrann reynir að fylkja ráðherrum að baki sér og