Hnefaleikakappinn Canelo Alvarez mun eiga fyrir salti í grautinn um ókomna tíð eftir að hafa skrifað undir ótrúlegan samning.
Það er barátta um bestu bitana í hnefaleikaheiminum eftir að HBO ákvað að hætta að sýna hnefaleika eftir að hafa verið 45 ára í bransanum.
Í morgun skrifaði Alvarez undir samning við DAZN streymiþjónustuna sem er ný á markaðnum og ætlar sér augljóslega stóra hluti. Samningurinn er til fimm ára og upp á ellefu bardaga. Alvarez fær í sinn hlut 365 milljónir dollara eða 43,4 milljarða króna.
Þetta er stærsti samningur sem íþróttamaður hefur gert í sögunni og toppar samning hafnaboltamannsins Ginacarlo Stanton sem samdi upp á 325 milljónir dollara við Miami Marlins árið 2014.
„Canelo er orðinn launahæsti íþróttamaður heims og gæti ekki verið hamingjusamari,“ sagði Oscar de la Hoya, umboðsmaður Alavarez.
