New York Times segir að liðsflutningunum sé ætlað að herða öryggi á suðurlandamærunum. Um átta hundruð hermenn hafi þegar verið sendir af stað frá herstöðum í Texas. Liðsflutningarnir séu hluti af aðgerðum sem Trump hafi krafist undanfarnar vikur. Í kjölfarið gæti forsetinn undirritað tilskipun um bann við komum Miðameríkumanna til Bandaríkjanna, þar á meðal hælisleitenda.
Trump hefur gert hóp förufólks frá Hondúras sem taldi upphaflega um þúsund manns, þar á meðal fjölda fjöskyldna og barna, að miðpunkti kosningabaráttu fyrir þingkosningar sem fara fram í næstu viku.
Hann hefur sagt hópinn valda neyðarástandi í Bandaríkjunum og hótað að loka suðurlandamærunum algerlega vegna hans. Þá hefur forsetinn haldið því fram á nokkurra sannana að í hópnum leynist „óþekktir Miðausturlandabúar“.
Trump hélt uppteknum hætti í dag þegar hann lýsti því yfir að fjöldi félaga úr glæpagengjum og „mjög slæmt fólk“ væri í hópi förufólksins. Sem fyrr lagði forsetinn ekki fram neinar vísbendingar máli sínu til stuðnings.
„Þetta er innrás í landið okkar og herinn okkar bíður ykkar,“ tísti forsetinn.
Many Gang Members and some very bad people are mixed into the Caravan heading to our Southern Border. Please go back, you will not be admitted into the United States unless you go through the legal process. This is an invasion of our Country and our Military is waiting for you!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) October 29, 2018
Hópurinn enn fjarri landamærunum
Liðsflutningarnir nú virðast því vera liður í kosningabaráttu Trump fyrir hönd Repúblikanaflokksins sem er í hættu á að missa meirihluta sinn í neðri deild Bandaríkjaþings. Telur Hvíta húsið að með því að leggja þunga áherslu á innflytjendamál hleypi það íhaldssömum stuðningsmönnum forsetans kapp í kynn og fái þá á kjörstað, að því er segir í frétt Washington Post.Þrátt fyrir tal Trump og herflutningana er hópu förufólksins enn staddur í Mexíkó, hundruð kílómetrum frá landamærunum að Bandaríkjunum. Áætlað er að um 3.500 manns séu nú í hópnum en gert er ráð fyrir að verulega fækki í honum á leiðinni í gegnum Mexíkó.
Fólkið lagði upp frá Hondúras fyrr í þessum mánuði. Það er sagt flýja fátækt og glæpi í heimalandinu. Ferðast það í hóp til að reyna að verja sig fyrir glæpamönnum og fólkssmyglurum á leiðinni í gegnum Mið-Ameríku og Mexíkó í krafti fjöldans.