Innlent

Býr til sínar eigin jólakúlur á Selfossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Þrátt fyrir að það séu tveir mánuðir til jóla þá situr Sæunn Þorsteinsdóttir á Selfossi við alla daga og útbýr sínar eigin jólakúlur sem afkomendur hennar fá sem auka jólagjöf með jólapökkunum. Sæunn sem er sjötíu og níu ára segist alltaf hafa verið mikið jólabarn.

Þó það sé fátt sem minni á jólin þessa dagana á Selfossi þá situr Sæunn inn í föndurherberginu sínu við Sólvellina og útbýr jólakúlurnar sínar. Það gerir hún yfirleitt fyrir öll jól, byrjar í október og er að fram að jólum. Núna er hún aðallega að gera frauðkúlur sem hún skreytir með borðum og fleiru fallegu sem hún hannar sjálf.

En hvað er skemmtilegast við jólakúlugerðina?

„Það er bara að sjá þetta verða til, það er skemmtilegt. Þetta styttir mér stundirnar þó ég sitji allt of mikið við þetta, það finn ég alveg, það er ekki mjög holt fyrir skrokkinn“, segir Sæunn sem segist vera mikið jólabarn enda var alltaf mikið föndrað fyrir jólin heima hjá henni þegar hún var barn og unglingur.

 

 

Sæunn við störf í handavinnuherberginu sínu á Selfossi.Magnús Hlynur Hreiðarsson.
Sæunn segir að henni finnist skemmtilegast við jólin að hitta allt fólkið sitt og eiga góða stund með því saman, auk þess sem hún heillist alltaf af jólaskreytingum og jólaljósunum á þessum árstíma sem senn fer í hönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×