Erlent

Björguðu kengúru frá drukknun

Andri Eysteinsson skrifar
Kengúra við ástralska strönd, ekki er vitað hvort þessi tiltekna kengúra hafi nokkurn tímann þurft á aðstoð lögreglu að halda.
Kengúra við ástralska strönd, ekki er vitað hvort þessi tiltekna kengúra hafi nokkurn tímann þurft á aðstoð lögreglu að halda. EPA / Dave Hunt
Tveir ástralskir lögreglumenn drýgðu hetjudáð í gær þegar þeir björguðu kengúru úr sjávarháska. BBC greinir frá.



Lögreglumennirnir tveir, Christopher Russo og Kirby Tonkin drógu kengúruna sem var meðvitundarlaus úr sjónum og hófu endurlífgunaraðgerðir. Kengúran er nú á batavegi en mun líklega hugsa sig tvisvar um áður en hún tekur aftur upp á því að taka sundsprett.

Mia Grant íbúi á Morningtonskaga, sunnan við Melbourne segir í viðtali við ástralska fjölmiðla að hún hafi séð kengúruna hoppandi með framveginum í átt að Safety strönd.

„Ég sá hana synda og byrjaði að taka upp myndband en allt í einu festist hún í útsoginu svo við höfðum samband við lögreglu.“

Dýrið hafði komist upp úr sjónum þegar lögreglu bar að garði en skelfdist við það að sjá tvo fíleflda lögreglumenn ganga að sér og stökk aftur út í hafið.

Lögreglumaðurinn Russo segir að dýrið hafi farið undir yfirborðið og hafi sýnt klár merki um að það væri að drukkna. Lögreglumennirnir gripu um dýrið og drógu aftur á land.

Kengúran var færð til lögreglustöðvar áður en starfsmenn dýraverndar sóttu dýrið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×