Golf

Ólafía færist fjær LPGA mótaröðinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Vísir/Getty
Möguleikar Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur á að halda korti sínu á LPGA mótaröðinni fara dvínandi. Ólafía er langt frá því að tryggja sig í gegnum lokaúrtökumótið.

Eftir fimm hringi af átta á lokaúrtökumótinu sem leikið er á Pinehurst vellinum er Ólafía Þórunn á meðal neðstu kvenna í mótinu.

Efstu 45 kylfingarnir komast inn á LPGA mótaröðina og eins og er eru síðustu kylfingarnir sem sleppa inn á 6 höggum yfir pari.

Ólafía hefur ekki náð sér á strik á úrtökumótinu til þessa og þar var engin breyting á í dag.

Hún byrjaði mjög vel og fékk tvo fugla á fyrstu þremur holunum. Á þeirri fjórðu fékk hún hins vegar tvöfaldan skolla og var því komin aftur á byrjunarreit.

Eftir það fór að halla verulega undan fæti og hrapaði Ólafía niður töfluna. Hún fékk fimm skolla og einn fugl á næstu tíu holum og var komin tíu höggum frá 45. sætinu.

Á 16. holu dagsins fékk Ólafía aftur tvöfaldan skolla. Hún kláraði síðustu tvær holurnar á pari og lauk leik samtals á átján höggum yfir pari í mótinu.

Ólafía þarf að vinna upp 12 högg á næstu þremur hringjum og treysta á að 45. sætið færist ekki á lægra skor til þess að komast inn á þessa sterkustu mótaröð heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×