Skoðun

Allt upp á borð!

Kolbrún Baldursdóttir skrifar
Borgarkerfið með allar nefndir sínar og ráð er að mörgu leyti eins og frumskógur. Iðulega er spurt um hve margir starfs- og stýrihópar eða nefndir starfa og hvort seta í þeim sé launuð. Eins er spurt um setu borgarfulltrúa í stjórnum og hvað sé greitt fyrir það. Það er mjög mikilvægt til að skapa traust og trúverðugleika að allar upplýsingar um þetta séu aðgengilegar. 

Beðið hefur verið um að nákvæmt yfirlit yfir allar nefndir, ráð og hópa á vegum borgarinnar verði birt á vef borgarinnar. Þar skulu jafnframt koma fram upplýsingar um það hvort um launaða setu er að ræða og ef svo er, hver er upphæð þóknanna. Þetta yfirlit þarf að vera aðgengilegt og auðfundið á vef borgarinnar sem og uppfært reglulega.

Til að auka trúverðugleika almennt séð er þrennt sem skiptir mestu máli. Það er gegnsæi, heiðarleiki og lýðræðisleg vinnubrögð.

Til að eyða efasemdum og vantrausti er fátt eins öflugt og að veita ýtarlegar upplýsingar um hlutina og gera það af heiðarleika og einurð. Það sem við viljum vita og spurt hefur verið um er eftirfarandi: 

1. Upplýsingar um allar nefndir aðrar en fastanefndir, ráð og hve margir stýri- og starfshópar starfa á vegum borgarinnar?

2. Upplýsingar um stjórnarsetu borgarfulltrúa og þóknun fyrir þær?

3. Hvaða nefndir/hópar, stjórnir eru launaðar og hver er þóknunin?

4. Hve margir þiggja þóknanir vegna setu í nefndum, ráðum, hópum og stjórnum á vegum borgarinnar?

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×