Erlent

Skotárás á veitingastað í Kaliforníu

Atli Ísleifsson skrifar
Árásarmaðurinn hóf skothríð á Borderline Bar & Grill veitingastaðnum í Thousand Oaks.
Árásarmaðurinn hóf skothríð á Borderline Bar & Grill veitingastaðnum í Thousand Oaks. Getty/Kali9
Lögregla í Kaliforníu hefur verið kölluð út eftir að tilkynning barst um skotárás á veitingastað í borginni Thousand Oaks. Erlendir fjölmiðlar greina frá því að fjölmargir hafi særst í árásinni.

Í frétt Sky segir að árásarmaðurinn hafi hafið skothríð á Borderline Bar & Grill veitingastaðnum í Thousand Oaks, um 60 kílómetrum vestur af Los Angeles.

Árásarmaðurinn er sagður vera á þrítugsaldri og hafi hann verið klæddur svörtu og með skegg. Fréttir hafa borist að karlmaður sé í haldi lögreglu vegna árásarinnar, þó að það hafi ekki fengist staðfest.

Í frétt ABC er haft eftir lögreglumönnum að árásarmaðurinn hafi beitt hálfsjálfvirku skotvopni og skotið um þrjátíu skotum. Þá hafi hann beitt reyksprengjum. Haft er eftir lögreglu að ellefu manns hafi orðið fyrir skoti.

Almenningur haldi sig fjarri

Ekki liggur fyrir hvort að einhver hafi látið lífið í árásinni, en vitað er að lögreglumaður særðist.

Lögregla hefur beint þeim orðum til almennings að halda sig fjarri staðnum.

Tilkynning barst fyrst klukkan 23:20 að staðartíma, eða um klukkan 7:20 að íslenskum tíma.

Á heimasíðu staðarins kemur fram að kántríkvöld fyrir háskólanema hafi farið fram á staðnum þegar árásin var gerð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×