Erlent

Hylltur sem hetja eftir að hafa ráðist að byssumanni með ryksugu og kústi

Sylvía Hall skrifar
Joshua Quick var hetja margra á föstudag þegar hann réðst að byssumanninum.
Joshua Quick var hetja margra á föstudag þegar hann réðst að byssumanninum. Skjáskot
Tveir létust þegar byssumaður hóf skothríð í jógastöð í Tallahassee í Flórída á föstudag. Árásarmaðurinn, fertugur karlmaður að nafni Paul Beierle, svipti sig lífi eftir að hafa skotið sex manns.

Maður að nafni Joshua Quick var þó bjargvættur margra þegar hann glímdi við árásarmanninn þegar skotvopnið virtist bilað. Hann greip ryksugu sem var í salnum og sló Beierle í höfuðið sem sló Quick til baka í andlitið með vopninu.

Eftir höggið frá Beierle féll Quick í jörðina en spratt fljótlega á fætur. „Ég sótti það eina sem ég fann annað en ryksuguna sem var kústur og sló hann í höfuðið með honum,“ sagði Quick í samtali við Good Morning America.





Hugrekki sem bjargaði lífi margra

Áflogin milli mannanna urðu til þess að margir náðu að flýja salinn og hafa margir þakkað Quick fyrir hugrekkið. Án hans væru þau ekki á lífi.

Daniela Garcia Albalat, einn iðkendanna, var skotin í lærið í jógatímanum en náði að koma sér út þegar Quick réðst að árásarmanninum. Hún segir hann hafa bjargað lífi sínu þegar hún hélt fyrir víst að hún myndi deyja.

Tvær konur, 21 árs og 61 árs, létust í árásinni og voru þær báðar iðkendur í tímanum á föstudag. Lögregluyfirvöld hafa ekki gefið út hvað þeir gruna að liggi að baki árásinni en margir hafa dregið þá ályktun frá Facebook-færslum árásarmannsins að kvenfyrirlitning hafi verið helsta ástæða hennar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×