Upplýsingar um skiptalok voru birtar í Lögbirtingablaðinu í dag. Þar segir að veðhafar hafi leyst til sín veðsettar eignir.
Týrus hf. var í eigu Snorra Hjaltasonar verktaka og eiginkonu hans Brynhildar Sigursteinsdóttur. DV fjallaði um fyrirtækið árið 2012. Þar kom fram að stærstur hluti skuldanna væri tilkominn vegna blokka í Innri-Njarðvík. Var hver íbúð í blokkinni veðsett upp á 27 milljónir króna að meðaltali sem var langt yfir markaðsverði.
Síðasta verk Guðna
Skiptastjóri í búinu var Guðni Bergsson, formaður KSÍ og fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu. Hann segir í stuttu samtali við RÚV að skiptin hafi verið síðasta útistandandi verkefni hans í lögmennskunni. Guðni tók við sem formaður KSÍ í febrúar 2017 en hann nam lög samhliða atvinnumennsku í knattspyrnu á sínum tíma.Trésmiðja Snorra Hjaltasonar komst í fréttirnar árið 2007 þegar verktakinn varð undir í baráttu við ríkið vegna kaupa á húsi við Borgartún 6, oft nefnt Rúgbrauðsgerðin.
Í kaupsamningi kom fram að húsið væri 5.210 fermetrar að stærð samkvæmt skrám Fasteignamats ríkisins en við mælingu kom í ljós að húsið var aðeins 4.735 fermetrar eða tæplega tíu prósentum minni en uppgefið var.
Fór Trésmiðjan fram á skaðabætur en fékk ekki. Þá vann Trésmiðjan mál gegn ríkinu árið 2008 sem snerist um sölu á hlut ríkisins í verktakafyrirtækinu Íslenskum aðalverktökum (ÍAV).