Erlent

Danski fjársvikarinn Britta Nielsen handtekin

Atli Ísleifsson skrifar
Málið hefur vakið mikla athygli í Danmörku síðustu misserin, ekki síst þar sem efnahagsbrotadeild barst fyrst ábendingar um að maðkur kynni að vera í mysunni árið 2012.
Málið hefur vakið mikla athygli í Danmörku síðustu misserin, ekki síst þar sem efnahagsbrotadeild barst fyrst ábendingar um að maðkur kynni að vera í mysunni árið 2012. Getty/HieronymusUkkel

Dönsk kona sem grunuð er um að hafa svikið um 111 milljónum danskra króna, rúma tvo milljarða íslenskra króna, úr sjóðum danskra félagsmálayfirvalda, var handtekin í Jóhannesarborg í Suður-Afríku í morgun.

„Flóttinn er á enda,“ sagði ríkissaksóknari í Danmörku á Twitter í morgun, og vísaði þar í mál hinnar 64 ára Brittu Nielsen.

Konan var handtekin í íbúð í suður-afrísku stórborginni og voru fulltrúar dönsku efnahagsbrotalögreglunnar viðstaddir handtökuna. Dönsk yfirvöld vilja fá hana framselda til Danmerkur eins fljótt og auðið er.

Fengu fyrst ábendingar 2012

Konan starfaði um fjögurra áratuga skeið í danska barna- og félagsmálaráðuneytinu og er grunuð um að hafa svikið gríðarlegar upphæðir úr úr sjóðum þess.

Málið hefur vakið mikla athygli í Danmörku síðustu misserin, ekki síst þar sem efnahagsbrotadeild lögreglu barst fyrst ábendingar um að maðkur kynni að vera í mysunni árið 2012. Í stað þess að taka málið til rannsóknar þá var það sent til skattayfirvalda sem rannsakaði málið sem möguleg skattsvik.

Þrír til viðbótar

38 ára danskur karlmaður var handtekinn í Suður-Afríku á föstudaginn, en efnahagsbrotadeild dönsku lögreglunnar grunar hann um að hafa gegnt lykilhlutverki í að koma peningunum í umferð. Tvær konur til viðbótar eru einnig grunaðar um að tengjast fjárdrættinum.

Talið er að Nielsen og samverkamenn hennar hafi dregið fé á árunum 2002 til þessa árs. Eiga ólöglegar færslur úr sjóðum yfirvalda að telja 274 hið minnsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×