Fjórtán manna áhöfn og hafnsögumanni var bjargað um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar þegar flutningsskipið Fjordvik frá Álaborg rak upp í hafnargarðinn í Helguvík á innsiglingu í nótt. Mikill mannskapur var kallaður út þegar neyðarkall barst frá skipinu rétt fyrir klukkan eitt.
Otti segir engin sjáanleg göt á skipinu. „En við erum vissir um að það sé kominn sjór í vélarúmið. Í nótt dóu allar vélar og það slökknuðu öll ljós um borð í skipinu sem gaf til kynna að það væri allavega kominn sjór í vélarúmið. Meira vitum við ekki," segir hann.
„Við sjáum ekki neinn alvöru leka en það er olíulykt í kringum skipið og eitthvað grugg sem við áttum okkur ekki alveg á hvað er af því að það er svo mikið brim í kringum skipið og það er allt á fleygiferð."

Viðbragðsaðilum á vettvangi hefur fækkað mikið en þegar mest lét í nótt voru um 80 til 100 manns á svæðinu.
Uppfært kl. 10:28:
Eins og staðan er á vettvangi er ekki talið forsvaranlegt að ráðast í aðgerðir að svo stöddu vegna slæmra veðuraðstæðna. Ákvörðun um næstu skref verður tekin síðar í dag. Samráðsfundur stendur nú yfir með fulltrúum Landhelgisgæslunnar, Lögreglunnar á Suðurnesjum, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og almannavarna vegna strands flutningaskipsins Nordvik í Helguvík.

