Erlent

Ástrali í fangelsi fyrir að hvetja eiginkonuna til sjálfsvígs

Atli Ísleifsson skrifar
Graham Morant mætir fyrir dómara í Brisbane.
Graham Morant mætir fyrir dómara í Brisbane. EPA-EFE
Dómstóll í Brisbane í Ástralíu hefur dæmt 69 ára karlmann, Graham Morant, í tíu ára fangelsi fyrir að hafa aðstoðað eiginkonu sína að svipta sig lífi, í þeim tilgangi að leysa út líftryggingu hennar.

Eiginkona mannsins, Jennifer Morant, þjáðist af krónískum bakverk, þunglyndi og kvíða og fannst látin í bíl sínum í nóvember 2014. Við hlið hennar var miði þar sem hún bað um að endurlífgun yrði ekki reynd. Líftryggingin rann að fullu til eiginmannsins, alls um 120 milljónir króna.

Í dómi kom fram að eiginmaðurinn hafi keypt búnað til verksins í járnvöruverslun og síðan hvatt eiginkonu sína til að binda enda á líf sitt.

„Þú misnotaðir veika og þunglynda konu. Þú gafst henni ráðleggingar og aðstoð til að svipta sig lífi þannig að þú gætir komist yfir peninginn,“ sagði dómarinn Peter Davis þegar hann kvað upp dóminn.

Hugðist stofna trúfélag

Graham Morant á að hafa haft í hyggju að stofna trúfélag fyrir peninginn og sagt eiginkonu sinni, sem þá var 56 ára gömul, að guð þætti það ekki vera synd, myndi hún kjósa að fara þá leið að fremja sjálfsvíg.

Dómarinn sagði að Graham Morant hafi ekki sýnt neina iðrun. Hann getur fyrst sótt um reynslulausn árið 2023.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið.

Nánari upplýsingar hér. https://www.raudikrossinn.is/hvad-gerum-vid/hjalparsiminn-1717




Fleiri fréttir

Sjá meira


×