Erlent

Fundinn sekur um sex morð eftir árásina í Melbourne

Kristín Ólafsdóttir skrifar
James Gargasoulas.
James Gargasoulas. EPA/DAVID CROSLING
Ástralskur karlmaður var í dag dæmdur sekur fyrir morð á sex einstaklingum og að hafa sært 27 til viðbótar í áströlsku borginni Melbourne í janúar í fyrra. Maðurinn ók bíl á gangandi vegfarendur með áðurgreindum afleiðingum.

Maðurinn, James Gargasoulas, er 28 ára gamall. Hann neitaði sök en játaði síðar aðild sína að árásinni. Fórnarlömb hans voru á aldrinum þriggja mánaða til 33 ára.

Í frétt BBC kemur fram að kviðdómi hafi verið sýnt myndefni af árásinni, auk myndbands af Gargasoulas þar sem hann sést aka bíl sínum glæfralega á meðal fólks rétt áður en hann lét til skarar skríða.

Gargasoulas hélt því fram að hann hefði innt voðaverkið af hendi fyrir tilstilli Guðs, sem hefði skipað honum að aka á vegfarendur. Þá kom fram við réttarhöldin að Gargasoulas hafi ekið á yfir 60 kílómetra hraða, og þá hafði hann einnig neytt hreins metamfetamíns mánuðina fyrir árásina. Dómur yfir Gargasoulas verður kveðinn upp síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×