Erlent

Þúsundir dala hafa safnast fyrir kerrukallinn

Andri Eysteinsson skrifar
Frá vettvangi í Melbourne.
Frá vettvangi í Melbourne. EPA/ James Ross
Fjölmargir góðhjartaðir Ástralar hafa safnað meira en 50.000 áströlskum dölum (um 4.500.000 isk) fyrir hinn heimilislausa Michael Rogers.

Rogers sem hefur fengið viðurnefnið Kerrukallinn (e. Trolley Man) neyddist til þess að nota innkaupakerru til að verjast vopnuðum manni í Melbourne, síðasta föstudag. Guardian greinir frá.

Árásarmaðurinn, hinn 30 ára gamli Hassan Khalif Shire Ali, gekk berserksgang og stakk einn mann til bana og særði tvo aðra. Ali var síðar skotinn af lögreglu og lést af sárum sínum á sjúkrahúsi. Áströlsk yfirvöld telja árásina vera hryðjuverk.

Rogers sagði í viðtali við ástralska miðilinn Channel Seven að hann hefði séð kerruna og reynt að fella árásarmanninn með henni, það hafi þó ekki tekist þrátt fyrir nokkrar tilraunir.

Vitni tóku baráttu Rogers upp á myndband og deildu á samfélagsmiðlum. Á samfélagsmiðlunum hlaut Rogers mikið lof fyrir hugrekki sitt og í kjölfarið var stofnað til söfnunarsíðu fyrir Rogers.

Donna Stolzenberg stofnandi hjálparsamtaka fyrir heimilislausa í Melbourne sagði í samtali við Reuters, að Rogers væri bara maður sem ætti þetta skilið.

Stolzenberg sagði að ásamt fjárgjöfinni myndi stofnun hennar aðstoða Rogers við að finna sér þak yfir höfuðið.


Tengdar fréttir

Maður gekk berserksgang í miðborg Melbourne

Karlmaður stakk þrjá vegfarendur í miðborg Melbourne. Einn er látinn og annar er sagður þungt haldinn á sjúkrahúsi. Árásarmaðurinn liggur einnig særður á sjúkrahúsi eftir að lögreglumenn skutu hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×