Erlent

Flugvél Merkel þurfti að nauðlenda

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari.
Angela Merkel Þýskalandskanslari. Getty/Sean Gallup
Angela Merkel Þýskalandskanslari mun missa af setningarhátíð leiðtogafundar G20-ríkjanna í Argentínu eftir að nauðlenda þurfti flugvél hennar skömmu eftir flugtak.

Skrifstofa kanslarans segir að ekkert ami að Merkel eða öðrum í sendinefnd Þýskalands. 

Flugstjórinn ákvað að lenda vélinni í Köln eftir að tæknibilun kom upp. Ákveðið var að snúa vélinni til þýsku borgarinnar Kölnar þegar flogið var yfir Holland, tæpri klukkustund eftir að hún tók á loft í Berlín.

Þýskir fjölmiðlar segja að Merkel muni halda för sinni áfram til Argentínu á morgun. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvers kyns tæknileg vandamál komu upp, en mikill viðbúnaður var á flugvellinum við lendingu.

Vélin er af gerðinni Airbus A340 og er nefnd í höfuðið á fyrrverandi kanslara Þýskalands, Konrad Adenauer. Deutsche Welle segir frá því að umrædd vél hafi áður verið til vandræða og ítrekað truflað ferðalög Frank-Walter Steinmeier Þýskalandsforseta síðustu misserin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×