Héraðsdómur Suðurlands hefur framlengt gæsluvarðhald yfir karlmanni, sem grunaður er um að hafa valdið mannskæðum eldsvoða að Kirkjuvegi á Selfossi í lok október, um fjórar vikur. Mun maðurinn því sæta gæsluvarðhaldi allt til 27. desember næstkomandi.
Tveir létust í eldsvoðanum þann 31. október. Maðurinn viðurkenndi við yfirheyrslu lögreglu að hann hafi notað kveikjara til að kveikja í pappakassa í stofu á neðri hæð hússins skömmu áður en það varð alelda. Þá tjáði hann lögreglu að hann „væri bara morðingi“, að því er fram kom í úrskurði Landsréttar frá 15. nóvember síðastliðnum.
Maðurinn hafði áður verið úrskurðaður í gæsluvarðhald en sá úrskurður rann út í dag. Fallist var á framlengingingu gæsluvarðhaldsins að kröfu lögreglustjórans á Suðurlandi.
Húsið að Kirkjuvegi 18 gjöreyðilagðist í eldsvoðanum og var rifið um miðjan nóvember.
