Norski Miðflokkurinn (SP) íhugar nú að leggja fram vantrausttillögu á forsætisráðherrann Ernu Solberg og ríkisstjórn hennar. Frá þessu greindi formaðurinn Trygve Slagsvold Vedum í útvarpsviðtali hjá NTB í morgun.
Vedum segir ástæðuna vera að ríkisstjórninni hafi mistekist að tryggja öryggi opinberra bygginga og innviði, sem hefur verið mikilvægur þáttur í norskri stjórnmálaumræðu í kjölfar hryðjuverkaárásar Anders Behring Breivik í höfuðborginni Ósló og Útey þann 22. júlí 2011.
„Við íhugum vantraust þar sem ríkisstjórn hefur veitt þinginu ófullnægjandi og rangar upplýsingar,“ sagði Vedum í viðtalinu. Hann segir þó að enn eigi eftir að fara fram almennileg umræða um málið innan þingflokks Miðflokksins.
Ríkisendurskoðandi Noregs hefur sömuleiðis gagnrýnt ríkisstjórnina og bent á ýmsa vankanta þegar kemur að viðbrögðum hennar við ábendingum um hvað mætti betur fara þegar kemur að öryggi í landinu.
Gustað um ríkisstjórnina
Miðflokkurinn mun í dag leggja fram tillögur á þinginu sem snúa að því að leggja stóraukið fé í að efla her og löggæslu í landinu.
Mikið hefur gustað um ríkisstjórn Solberg að undanförnu vegna deilna innan stuðningsflokksins Kristilega þjóðarflokksins sem íhugaði að ganga til liðs við rauðu blokkina sem nú er í stjórnarandstöðu.
Flokkurinn ákvað þó á flokksþingi að áfram tilheyra bláu blokkinni en krefjast beinnar aðildar að ríkisstjórn Hægriflokks Solberg, Framfaraflokksins og Venstre.

