Innlent

Reyfarakennd aðalmeðferð í einu stærsta þjófnaðarmáli Íslandssögunnar

Birgir Olgeirsson skrifar
Þorgils Þorgilsson verjandi ásamt Sindra Þór Stefánssyni í Héraðsdómi Reykjaness.
Þorgils Þorgilsson verjandi ásamt Sindra Þór Stefánssyni í Héraðsdómi Reykjaness. FBL/Ernir
Aðalmeðferð í Bitcoin málinu svokallaða í Héraðsdómi Reykjaness á mánudag var ansi eftirminnileg. Töluverður hiti var í dómsal þar sem dómari þurfti að biðja verjendur sakborninganna sjö að hafa sig hæga.

Mótsagnir og minnisleysi einkenndu vitnisburð margra sakborninga sem voru fyrirferðarmiklir á bekkjum dómsalsins þar sem mátti heyra háan viðrekstur á meðan skýrslutaka fór fram sem uppskar bros og kæfðan hlátur hjá þeim.

Maður með þétt og mikið dökkt hár varð að snoðuðum manni við aðalmeðferðina og flestir hinna ákærðu vildu ekki gefa upp hlut annarra í málinu, nema þegar kom að hlut starfsmanns Öryggismiðstöðvarinnar sem er ákærður í málinu. Sögðust sumir ekki tjá sig af ótta við menn sem voru ekki í dómsalnum. Gerði einn að því skóna að skipuleggjendurnir væru mögulega erlendir.

Vending strax í upphafi

Strax í upphafi aðalmeðferðar varð vending í málinu. Sindri Þór Stefánsson, sá sem er lang þekktastur af ákærðu þegar hann fór af landi brott eftir að hafa verið í varðhaldi á Sogni, játaði að hafa farið inn í gagnaver AVK ehf. í Borgarnesi í desember og gagnaver Advania á Ásbrú í janúar og stolið þaðan verðmætum tölvubúnaði. Sindri játaði þó ekki að hafa skipulagt, undirbúið eða lagt á ráðin varðandi þau innbrot. Einn hinna ákærðu, Matthías Jón Karlsson, játaði einnig að hafa brotist inn í Advania en neitaði að hafa skipulagt, lagt á ráðin eða undirbúið ránið.

Alls huldu sex sakborningar andlit sitt þegar þeir mættu í aðalmeðferð málsins á föstudag, allir nema Sindri Þór Stefánsson.Vísir/Vilhelm
Alls eru sjö ákærðir fyrir innbrot í þrjú gagnaver. Ekki eru allir ákærðir fyrir öll innbrotin og eru sumir ákærðir fyrir tilraun til innbrots. Er málið talið eitt stærsta þjófnaðarmál Íslandssögunnar.

Í ákærunni segir að þjófarnir hafi stolið 2.250 tölvuíhlutum, þar á meðal 350 bitcoin-tölvum, hátt í 500 aflgjöfum og spennum, yfir 800 skjákortum, 120 móðurborðum og jafnmörgum örgjörvum. Andvirði búnaðarins sé um 96 milljónir króna en tjón fyrirtækjanna er talið nema 135 milljónum. Búnaðurinn er enn ófundinn.

Við aðalmeðferðina mátti heyra breyttan framburð nokkurra ákærðu miðað við það sem þeir sögðu við rannsókn málsins og þá vildu sex ákærðu ekki gefa upp hlut annarra í málinu, nema þegar kom að hlut starfsmanns Öryggismiðstöðvarinnar sem er sakaður um að hafa veitt upplýsingar um gagnaver Advania.

Tímalína innbrotanna lítur svona út:

  • Sindri Þór og bræðurnir Matthías Jón og Pétur Stanislav Karlssynir eru sakaðir um stórfelldan þjófnað með því að hafa lagt á ráðin, undirbúið, skipulagt og framkvæmt innbrot og þjófnað í gagnaverum Algrim Consulting og BDC Mining á rúmum tólf klukkutímum frá 20:20 þann 5. desember 2017 og til klukkan 09 morguninn eftir 6. desember. Gagnaverin eru rekin að Heiðartröð 555 og Heiðartröð 554 á Ásbrú í Reykjanesbæ. Allir neita sök er varða þennan ákærulið.

  • Sömu menn eru ákærðir fyrir tilraun til stórfellds þjófnaðar þegar þeir ætluðu að brjótast inn í gagnaver BDC Mining að Heiðartröð 557 á tímabilinu 5. desember 2017 til 10. desember 2017. Þeim tókst hins vegar ekki ætlunarverk sitt. Allir neita sök.

  • Sindri Þór, Matthías Jón og Viktor Ingi Jónasson eru ákærðir fyrir stórfelldan þjófnað fyrir að hafa brotist inn í gagnaver AVK í iðnaðarhverfi í Borgarnesi þann 15. desember 2017. Sindri Þór hefur sem áður segir játað að hafa brotist inn í gagnaverið en neitar að hafa skipulagt, undirbúið eða lagt á ráðin um það. Hinir tveir, Matthías og Viktor, neita sök.

  • Sömu menn eru ákærðir fyrir tilraun til þjófnaðar með því að hafa skipulagt innbrot og þjófnað í BDC Mining að Heiðartröð 555 til 557 að Ásbrú aðfaranótt annars dags jóla í fyrra. Er einn þeirra sagður hafa farið inn í húsið en þeir hurfu á brott þegar þjófavarnarkerfið fór í gang. Allir neita sök.

  • Sindri Þór, Matthías Jón og Pétur Stanislav eru ákærðir fyrir að hafa í samvinnu við Viktor Inga, Hafþór Loga Hlynsson og Ívar Gylfason, undirbúið, lagt á ráðin, skipulagt innbrot og þjófnað í gagnaver Advania að Sjónarhóli á Ásbrú í Reykjanesbæ á milli klukkan 03 og 05 aðfaranótt 16. janúar síðastliðinn. Sindri Þór og Matthías hafa játað að hafa farið inn í gagnaverið og haft þaðan í burtu tölvubúnað en neita að hafa skipulagt, undirbúið og lagt ráðin um innbrotið. Hinir neita alfarið sök.

Sindri hræddur við skipuleggjandann

Áður er búið að greina frá því á Vísi að Sindri Þór sagðist aðeins hafa verið að fylgja skipunum þegar kom að innbrotunum í gagnaver Advania að Ásbrú og AVK í Borgarnesi. Sindri neitaði að gefa upp frá hverjum hann fylgdi skipunum. Dómarinn í málinu spurði Sindra hvort hann væri að taka sök fyrir annan. Sindri sagðist ekki vera að gera það. Dómarinn sagði að allt benti til þess og að afleiðingarnar yrðu alvarlegar fyrir Sindra ef hann gerði svo. Sindri sagðist gera sér grein fyrir því en afleiðingarnar yrðu alvarlegri fyrir sig og fjölskyldu sína ef hann myndi segja frá.

Einn hinna ákærðu er Ívar Gylfason, sem var starfsmaður Öryggismiðstöðvarinnar þegar innbrotið í gagnaver Advania á Ásbrú átti sér stað aðfaranótt 16. janúar síðastliðinn.

Ívar er sakaður um að hafa látið Sindra Þór Stefánsson, bræðurna Matthías Jón og Pétur Stanislav Karlssyni hafa öryggisupplýsingar sem hann bjó yfir ásamt öryggiskóða sem var notaður til að taka af öryggiskerfi í gagnaverinu. Þá er hann einnig sakaður um að hafa látið Sindra Þór, Matthías Jón og Pétur hafa fatnað merktum Öryggismiðstöðinni til að klæðast við innbrotið og þjófnaðinn.



Sagðist aðeins hafa veitt almennar upplýsingar

Ívar sagði við aðalmeðferðina að hann hefði einungis veitt mönnunum sem brutust inn í Advania-gagnaverið almennar upplýsingar um gagnaverið. Hann hefði ekki látið þá hafa teikningar af gagnaverinu, þess þá heldur öryggiskóða eða fatnað. Hann sagði mennina hafa geta fengið þær upplýsingar víðar og einnig fatnaðinn.

Ívar var starfsmaður Öryggismiðstöðvarinnar en hann er sakaður um að hafa aðstoðað við innbrotið i gagnaver Advania. FBL/Eyþór
Við aðalmeðferðina sagði Ívar að hann hefði aðeins þekkt einn af hinum sex meðákærðu. Það er Kjartan Sveinarsson sem er sambýlismaður fyrrverandi konu Ívars. Af þeim sem eru ákærðir í málinu sagðist hann einungis hafa rætt við Kjartan og Sindra Þór í aðdraganda innbrotsins í Advania-gagnaverið.

Kjartan er ákærður fyrir að hafa komið á samskiptum á milli Hafþór Loga Hlynssonar og Matthíasar Jóns Karlssonar við Ívar.

Ívar sagði Kjartan hafa sett sig í samband við sig 6. janúar síðastliðinn og „nuðað“ í sér um að hitta hann. Um var að ræða tvö símtöl, í fyrra samtalinu sagðist Ívar hafa lagt á Kjartan því hann hafði ekki tíma til að ræða við hann. Í seinna símtalinu svaraði Ívar. Kjartan bað hann um að hitta sig í Mjóddinni og mættust þeir fyrir utan Sambíóin í Álfabakka.

Þar rétti Kjartan honum síma þar sem rætt var við Ívar.

Neitaði boðinu en sagðist síðar hafa verið hótað

Ívar sagðist hafa neitað boðinu um að veita mönnunum upplýsingar um Advania-gagnaverið. Hann sagði að beðið hefði verið eftir honum fyrir utan heimili hans nokkru síðar og fullyrti að Sindri hefði verið þar á meðal þriggja manna. Hann sagðist ekki hafa þekkt hina mennina sem voru með Sindra og að þeir væru ekki dómsalnum.

Hann sagði að þjarmað hefði verið að sér og hann hafi gefið þeim almennar upplýsingar um gagnaverið. Við aðalmeðferðina kom fram að Öryggismiðstöðin héldi skráningu yfir fatnað sem starfsfólk fær en þessu hafnaði Ívar og sagði þá ekki halda bókhald yfir það. Hann hefði til að mynda látið annan starfsmann hafa sinn fatnað fyrir nokkrum árum og engin skrá hefði verið haldin um það.

Sakborningarnir eru margir hverjir vinir og sögðust til að mynda Hafþór Logi og Sindri Þór deila öllu sín á milli.FBL/ERNIR

Teikningar bornar saman

Sindri sagði við aðalmeðferðina að hann hefði fengið teikningu af gagnaverinu frá Ívari en Ívar sagði það ekki rétt. Alda Hrönn Jóhannsdóttir saksóknari rétti Ívar tvær teikningar, önnur þeirra var sú sem fékkst við rannsókn málsins en hin var sú sem Ívar teiknaði þegar hann var í haldi lögreglu. Alda Hrönn spurði Ívar hvort þessar teikningar væru ekki líkar og gekkst Ívar við því, enda verði einfaldar teikningar af sama húsinu alltaf líkar.

Ívar ítrekaði fyrir dómi að hann hefði aðeins veitt mönnunum sem stóðu að innbrotinu í Advania-gagnaverið almennar upplýsingar um þjófavarnarkerfið, eldvarnakerfið og öryggismyndavélar.



Undruðust að samskiptin héldu áfram

Verjandi Sindra Þórs spurði á móti hvers vegna þeir sem eru ákærðir í málinu höfðu ítrekað samband við hann fyrst Ívar var aðeins að veita þeim almennar upplýsingar og þeir fengu ítarlegar upplýsingar eftir öðrum leiðum. Ívar sagðist ekki gera sér grein fyrir því og einhver annar en hann ætti að svara því.



Taldi þá beita samræmdum framburði gegn sér

Matthías Jón Karlsson hélt því fram fyrir dómi að hann hefði farið heim til Ívars og fengið þar hjá honum úlpu frá Öryggismiðstöðinni og Sindri sagðist hafa fengið teikningu frá Ívari. Þá sagði Matthías við aðalmeðferðina að Ívar hefði verið sá sem var með öryggiskóða að gagnaverinu, fatnaðinn, þekkt bygginguna og þrýst á menn að halda áfram með verkið.

Ívar var spurður út í þetta og fullyrti að framburður þeirra hefði verið samrýmdur til að beita gegn honum.

Dómarinn í málinu spurði Sindra Þór við aðalmeðferðina hvers vegna spjótin stæðu að Ívari í dag, en þannig var staðan ekki við rannsókn málsins. Sindri sagði að Ívar hefði játað aðild í apríl.

Sindri Þór á leið í dómsal.FBL/Ernir
Verjandi Sindra spurði Sindra hvort að Ívar væri „skipuleggjandinn“ sem hann væri hræddur við. Sindri sagðist svo ekki vera og hann væri ekki hræddur við Ívar. „Ef hann væri þessi einstaklingur myndi ég ekki tjá mig.“

Á einum stað lýsti Ívar því að hann hefði setið fund með þremur mönnum í bíl þar sem Sindri var ökumaður og hélt síma á milli fram- og aftursæta þar sem sjá mátti á símanum að símtalið barst frá númeri sem var merkt XYZ, en fram kom við aðalmeðferðina að sá væri Hafþór Logi Hlynsson. Hafþór var á dögunum dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir peningaþvætti.

Ívar sagðist hins vegar ekki vita hverjir hinir tveir það eru sem voru í bílnum.

Mundi smáatriði en ekki hver hótaði honum

Ívar sat í aftursætinu og sagði að sá sem sat við hliðina á sér hefði verið snoðaður og talað með austur-evrópskum hreim. Sagði hann þann snoðaða hafa hótað honum en hann myndi ekki hver hann væri. Verjandi Matthíasar sagði það sérstakt að Ívar myndi ýmsar dagsetningar og nöfn á símtækjum, en myndi ekki hver það var sem hótaði honum svo gróflega.

Verjandinn spurði Ívar hvort hann teldi þann austur-evrópska vera stjórnanda í málinu og sagðist Ívar telja það.

Hann sagði Sindra hafa haft sig mest frammi að spyrja um upplýsingar. Hann mundi ekki nákvæmar dagsetningar en sagðist í enda desember hafa fengið símtal þar sem hann var spurður hvort hann væri starfsmaður Öryggismiðstöðvarinnar og hvort hann hefði upplýsingar. Hann sagðist ekki vita frá hverjum það símtal væri en var sannfærður um að það hefði átt sér stað þó að rannsókn lögreglu á símagögnum hefði ekki sýnt fram á að þetta símtal hefði átt sér stað.



Geðshræring olli breyttum framburði

Ívar var í fyrstu úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rannsóknar málsins og svo aftur í mars. Hann var spurður hvers vegna hann sagði lögreglu ekki satt í upphafi. Ívar sagði að hann hefði verið í mikilli geðshræringu og sagðist hafa breytt framburði sínum hjá lögreglu því hann hefði áttað sig á því að það yrði betra fyrir sig.

Sagðist Ívar hafa heyrt af því að innbrotsþjófarnir ætluðu að nota eftirfarabúnað, eða „tracker“ til að setja á bíl frá Öryggismiðstöðinni.



Vissi ekki af hverju hann sagði ekki Öryggismiðstöðinni 

Verjandi Kjartans minnti Ívar á að fyrsta samtalið sem hann átti vegna málsins var 6. janúar síðastliðinn þar sem hann var beðinn um upplýsingar um gagnaverið gegn greiðslu sem Ívar neitaði. Spurði verjandi Kjartans hvort það væri ekki eitthvað öryggisnet fyrir starfsmenn Öryggismiðstöðvarinnar til að leita í og hvers vegna Ívar fór ekki með þær upplýsingar til fyrirtækisins. Ívar sagðist ekki vita af hverju hann gerði það ekki. Spurður hvort starfsmenn væru ekki búnir undir slíkar aðstæður svaraði Ívar því neitandi.

Talað hefur verið um málið sem eitt stærsta þjófnaðarmál Íslandssögunnar.FBL/ERNIR

Treystir ekki lögreglunni

Alda Hrönn spurði jafnframt hvers vegna Ívar hefði ekki farið til lögreglu með upplýsingarnar. Sagðist hann ekki treysta lögreglunni og að hún hefði sannarlega ekki hingað til staðið sig í hótunarmálum.

Ívar sagði að samkvæmt fyrsta samtalinu sem hann átti vegna málsins hafi átt að greiða honum fyrir upplýsingar um gagnaverið, sem hann hafnaði. Eftir að hafa verið hótað gaf hann mönnum almennar upplýsingar um gagnaverið. Verjandi Sindra spurði hvers vegna í ósköpunum mennirnir héldu áfram að vera í samskiptum við hann allt þar til daginn fyrir innbrotið ef þeir voru bara að fá almennar upplýsingar frá Ívari og höfðu fengið „lykil“-upplýsingar frá öðrum?

Ívar ítrekaði að upplýsingar um öryggiskóða komu ekki frá honum og það væri vel mögulegt að fá fatnaðinn annars staðar frá.



Maður með dökkt og mikið hár varð að snoðuðum manni

Dómarinn spurði Ívar hvort hann hefði fengið borgað og sagði Ívar að hann hefði hafnað greiðslu. Dómarinn spurði hverjir aðrir það voru sem áttu að hafa svo góðar upplýsingar um gagnaverið en Ívar svaraði að það gætu hafa verið tæknimenn hjá Öryggismiðstöðinni eða fólk sem starfar hjá gagnaverinu.

Dómarinn rifjaði upp að Ívar hefði í fyrstu sagt hjá lögreglu að maðurinn sem sat við hlið hans hefði haft dökkt, þétt og mikið hár en við aðalmeðferðina var maðurinn orðinn snoðaður. Ívar svaraði að þetta hlyti að vera einhver misskilningur hjá dómaranum og vildi meina að hann hefði sagt Sindra vera með mikið hár, en dómarinn svaraði í beinu framhaldi að svo væri ekki sem uppskar mikinn hlátur hjá þeim sem eru ákærðir og verjendum þeirra. Dómarinn bar þetta undir saksóknara og verjendur sem allir könnuðust við frásögn Ívars af manni með þétt og mikið dökkt hár.



Tölvurnar nýkomnar í hús

Innbrotin í gagnaverin höfðu talsverð áhrif á orðspor Íslands. Þetta sagði Bjarni Brynjúlfsson, stjórnarformaður BDC Mining, við aðalmeðferð málsins.

Sindri Þór Stefánsson ásamt bræðrunum Matthíasi Jóni og Pétri Stanislav Karlssonum eru sakaðir um að hafa haft tölvubúnað að verðmæti 42 milljóna króna úr frá BDC Mining og Algrim Consulting.

BDC Mining hóf starfsemi á Íslandi árið 2014 í annarri fasteign en fluttu í fasteignina sem var brotist inn í fyrra. Bjarni sagði að sá búnaður sem var tekinn hafi verið nýkominn í húsið og ennþá í pökkunum.

Byggingin í Borgarnesi sem hýsti gagnaverið þar. FBL/ERNIR

Hafði áhrif á orðspor Íslands

Bjarni sagði tjónið sé gríðarlega mikið og vandræði fylgi því að glata slíkum tölvubúnaði. Um hafi verið að ræða vont tjón fyrir gagnaversgeirann sem hefur afleiðingar fyrir Íslands sem gagnaversstað. Umræða um öryggismál hér á landi og tryggingamál hafi gert samtölin við erlenda fjárfesta þyngri.

Tölvurnar voru í eigu erlendra fjárfesta en Bjarni sagði þetta hafa gert BDC Mining, sem er í raun hýsingaraðili vélanna, erfitt fyrir en það hafði verið rekið á á fjármagni sem var naumt skammtað og það hafi verið erfitt að komast í gegnum þetta tímabil í rekstri.



Sjónir beindust að erlendum verkamönnum

Bjarni sagði fyrirtækið hafa tekið saman lista yfir alla sem höfðu komið að því að reisa húsið eða haft einhvers konar samskipti við fyrirtækið og afhent hann lögreglu.

Spurður hvort að grunur hefði fallið á einhvern sagði Bjarni að ýmislegt hefði komið upp í hugann þegar litið var yfir farinn veg. Til að mynda voru erlendir verkamenn að störfum þegar húsið var í byggingu sem talið var að gætu haft aðild að þessu máli.

Bjarni var spurður hvort ekki hefði verið óvenjulegt að geyma svona mikið magn af dýrum tölvubúnaði í óupphitaðri geymslu. Bjarni svaraði að um hefði verið að ræða búnað sem var á leið í uppsetningu. Um var að ræða bráðabirgðalausn og áttu tölvurnar að vera komnar upp eins hratt og hægt var. Hann sagði að ekki hefði heldur verið gert ráð fyrir að almenn vitneskja hefði verið um tilvist tölvanna í húsinu.



Grannvaxinn maður hefði komist í gegnum gatið

Starfsmaður hjá Algrim Consulting leiddi að því líkum fyrir dómi að þjófarnir hafi skriðið inn um lítið gat á byggingunni sem ekki var búið að loka fyrir. Þorgils Þorgilsson, verjandi Sindra Þórs Stefánssonar, spurði starfsmanninn hvort að starfsmaðurinn hefði geta skriðið inn um gatið. Starfsmaður sagði að hann hefði ekki getað gert það, því gatið hefði verið of lítið fyrir hann. Þorgils, sem er grannur að vexti, taldi að starfsmaðurinn gæti það.



Mikið áfall fyrir Algrim

Daði Halldórsson, eigandi Algrim Consulting, sagði að Algrim stæði ekki í rekstri á gagnaveri, heldur væri fyrirtækið í verktöku við að setja upp þennan búnað fyrir erlendan eiganda. Hann sagði innbrotið hafa seinkað þeirra áformum um þrjá mánuði og verið mikið áfall sem hefði haft mikil áhrif á fyrirtækið.



Tölvurnar höfðu verið í gangi í sex daga í Borgarnesi

Björk Kristjánsdóttir er eigandi AVK ehf. gagnavers sem var rekið að Sólbakka í iðnaðarhverfi í Borgarnesi. Sindri Þór Stefánsson og Matthías Jón Karlsson hafa báðir viðurkennt að hafa farið þangað inn og tekið tölvur og búnað að verðmæti sex milljóna króna.

Björk sagði að tölvurnar hefðu verið nýkomnar í húsið sem hafði verið endurgert að hluta til að geta hýst slíka starfsemi. Tölvurnar voru setta í gang níunda desember en aðfaranótt fimmtánda desember var húsið hreinsað. Samtals voru tölvurnar því í gangi í húsinu í sex daga.

Hún sagði að mögulega hefði mátt huga aðeins betur að öryggisbúnaði hússins. Hún tók hins vegar fram að um hefði verið að ræða rammgert húsnæði. Hún tók fram að gluggar hússins séu í sjö til átta metra hæð og hún hefði ákveðið að skilja smá rifu eftir á nokkrum gluggum því þau voru ekki tilbúin með loftunarbúnað til að kæla vélarnar.



Langar að vita hvernig þjófarnir komust inn

Hún sagði rannsókn lögreglu engu hafa skilað hvernig farið var í húsið og sagði hún við aðalmeðferðina að henni lægi mikil forvitni á að vita hvernig þjófarnir komust inn í húsið. Var farið inn um glugga í sjö til átta metra hæð eða inn um dyr?

Hún sagði að tjónið vegna rekstrarstöðvunar hefði numið 7- 8 milljónum króna fyrir utan þær milljónir sem voru lagðar í að aðlaga húsið að rekstrinum.

Tölvurnar voru tryggðar en Björk sagði að tryggingafélagið hefði verið tregt til að bæta það vegna þess að hún hafði skilið eftir rifu á gluggum. Tryggingafélagið hefði engu að síður látið AVK hafa tvær og hálfa milljón í sanngirnisbætur.



Sindri Þór man almennt lítið

Sindri Þór Stefánsson átti erfitt með að muna atburði sem áttu sér stað fyrir ári síðan. Sindri Þór er ákærður fyrir þjófnað úr þremur gagnaverum, BDC Mining og Algrim Consulting, AVK ehf. og Advania.

Hann er einnig ákærður fyrir að reyna tvisvar til viðbótar að brjótast inn í BDC Mining.

Hafþór Logi Hlynsson sagði við aðalmeðferðina að hann og Sindri væru æskuvinir og deildi öllu. Þess vegna hefði Sindri Þór haldið Hafþóri svo upplýstum um stöðu mála er varða innbrotið í gagnaver Advania. Hafþór sagði við aðalmeðferðina að hann skyldi ekki af hverju Sindri gerði það en vænti þess að það hafi verið vegna þess að þeir séu svo góðir vinir. 

Saksóknari spurði Sindra út í fjölda atriða sem gerðust fyrir ári síðan en Sindri sagðist eiga erfitt með að muna það.

„Ég man voða lítið yfir höfuð. Ekki bara þetta mál. Þetta er vandamál hjá mér,“ sagði Sindri.



„Ég er ekki jólabarn“

Ein af tilraununum til innbrots í BDC Mining átti sér stað á öðrum degi jóla í fyrra. Alda Hrönn saksóknari spurði Sindra hvað hann hefði verið að gera að kvöldi jóladags og á öðrum degi jóla í fyrra.

„Bara heima hjá mér, ég man það ekki,“ sagði Sindri sem átti heima á Akureyri.

Hann var spurður hvort hann hefði fengið bíl bróður síns lánaðan og sagðist Sindri hafa gert það til að fara með hluta af búslóð í geymslu.

Alda Hrönn spurði Sindra hvort hann hefði virkilega verið að fá bíl bróður síns lánaðan til að flytja búslóð á jóladag og öðrum degi jóla.

„Ég er ekki jólabarn,“ svaraði Sindri sem sagðist líta á jólin eins og hvern annan frídag.

Hann sagðist hafa staðið einn í þessum flutningi á búslóðinni en hann sagðist hafa farið með hana frá Akureyri og alla leið á Ásbrú á Reykjanesi í geymslu.



Alda Hrönn sagði að jeppling hefði verið ekið að Heiðartröð, þar sem BDC Mining er til húsa, á öðrum degi jóla og þar hefðu tveir menn stíga út. Sindri sagðist ekki hafa verið þar.



Getur verið hvaða pallbíll sem er

Alda Hrönn benti á að pallbíll með hestakerru hefði sést að Heiðartröð á þessum degi en Sindri sagðist ekki hafa verið með hestakerru aftan í bíl bróður síns.

Alda Hrönn benti á að samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu þá séu til tveir bílar á landinu sem eru af sömu gerð og bíll bróður Sindra.

Alda Hrönn sagði Sindra hafa verið á svoleiðis bíl á svæðinu á sama tíma.

„Ég er ekkert að fara að mótmæla því sem Samgöngustofa hefur að segja, þetta getur verið hvaða pallbíll sem er,“ sagði Sindri.



Símarnir ferðuðust á sama tíma

Viktor Ingi Jónasson er ákærður fyrir innbrot í gagnaverið í Borgarnesi og einnig fyrir tilraun til innbrots í BDC Mining á Ásbrú á öðrum degi jóla.

Alda Hrönn benti Sindra á að samkvæmt rannsókn lögreglu þá ferðuðust símar Sindra Þórs og Viktors Inga saman frá Ásbrú til Hafnarfjarðar. Bæði Sindri og Viktor sögðust voða lítið geta sagt við því. Sindri hafði verið spurður hvort hann hefði verið með Viktori þetta kvöld en Sindri svaraði að hann vissi að hann væri að vinna í Reykjanesbæ.



Viktor „sæti“ sagði marga með húðflúr og leðuról

Alda Hrönn spurði Sindra hver það væri sem væri skráður sem Viktor sæti í tengiliðaskrá í síma Sindra. Sindri benti á Viktor Inga í réttarsalnum og sagði: „Þessi þarna“ og uppskar annað hvort bros eða léttan hlátur hjá mörgum ákærðu og verjendum þeirra.

Þegar Viktor Ingi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins sagði Alda Hrönn honum frá því að eftir að brotist var inn í gagnaverið í Borgarnesi hefði maður sést koma akandi út úr Hvalfjarðargöngum. Náðist sá á vegamyndavélar þar sem sást að hann var með húðflúr á úlnliðum, líkt og Viktor, og með samskonar leðuról og Viktor hafði sést með á myndum á Facebook.

Viktor þverneitaði fyrir að þetta hefði verið hann sem sást aka í gegnum Hvalfjarðargöngin. Hann sagði fjölda manna með húðflúr á úlnliði og handarbaki og margir ættu leðuról.

Það var Matthías Jón Karlsson sem hafði keypt bílinn sem var notaður við eitt af innbrotunum að beiðni Sindra Þórs Stefánssonar. Viktor Ingi gekkst við því að hafa skoðað bílinn fyrir kaupin því hann hefði mikla þekkingu á bílum, enda starfsmaður bílaleigu. Hann gekkst þó ekki við því að hafa tekið þátt í kaupunum.

Hann sagði það heldur ekki sanna að það hefði verið hann sem ók bílnum í gegnum Hvalfjarðargöngin.

„Þetta getur verið nánast hver sem er,“ sagði Viktor.



Segja Rúrik ekki vera Rarik

Við aðalmeðferð málsins kom fram að Sindri hefði verið í leit að iðnaðarhúsnæði í janúar síðastliðnum. Sindri sagði sjálfur að hann hefði verið að leita að iðnaðarhúsnæði til að setja upp kannabisræktun. Hann hefði áður verið með kannabisræktun og sagði að hann hefði þá útskýrt að um gagnaver væri að ræða til að reyna að fela alla þá rafmagnsnotkun sem fór í ræktunina.

Stofnað hafði verið til samnings við Rarik vegna iðnaðarhúsnæðisins á Hofsósi en skilaboð voru borin undir Sindra og Hafþór þar sem stóð einfaldlega „rurik“.

Alda Hrönn spurði þá báða hvað um væri að ræða? Voru þeir að tala um mann sem heitir Rúrik eða eitthvað í tengslum við RARIK? Báðir sögðust þeir hafa verið að tala um Rúrik.

Alda Hrönn nefndi við aðalmeðferðina að fyrirtæki hefði stofnað til reikningsviðskipta við RARIK á nafni Viktors Inga Jónssonar 29. janúar síðastliðinn.

Viktor Ingi sagði við aðalmeðferðina að það hefði verið án þess að hann hefði vitað það. Sindri hefði notast við fyrirtækjanúmer sem Viktor hafði stofnað sem átti að nota við rekstur bíla. Alda Hrönn sagði umrætt fyrirtæki hafa verið notað til að leigja iðnaðarhúsnæði á Hofsósi. Alda Hrönn vísaði í samskipti við Sindra þar sem Sindri er beðinn um að breyta nafni fyrirtækisins.

Viktor sagðist hafa beðið um það því hann vildi ekki láta tengja nafnið við kannabisræktun á Hofsósi. Sindri hafi ætlað að ganga frá kaupum á kennitölu fyrirtækisins.



Veit ekki hvar tölvurnar eru

Sindri Þór hefur sem fyrr segir viðurkennt að hafa farið inn í gagnaver í Borgarnesi og gagnaver Advania. Dómarinn í málinu spurði hann hreint úr hvar tölvurnar væru en Sindri sagðist ekki vitað það.

Við aðalmeðferðina rakti Sindri aðdraganda innbrotanna. Hann sagðist hafa staðið illa fjárhagslega, gat ekki lengur staðið í skilum á láni á húsi sínu á Íslandi, hafði lagt inn innborgun fyrir húsi á Spáni og hafði greitt flugnám eiginkonu sinnar. Hans hlutverk á heimilinu hefði verið að sjá um peningamál og hann hefði verið að klúðra því.

Hann setti sig í samband við fjárfesta erlendis til að leita eftir fjármagni fyrir Bitcoin-veri á Íslandi. Þá hafi sú hugmynd komið upp frá mönnum að stela Bitcoin-tölvum á Íslandi og útiloka þannig samkeppnina.

Sindri sagði að hver Bitcoin-tölva fái verðlaun, bitcoin-mynt, ef hún getur leyst erfiðar reikniformúlur. Ef færri aðilar stunda slíkan „námugröft“ þá séu verðlaunin meiri.

Hann tók jafnframt fram við aðalmeðferð málsins að honum þætti einkennilegt að kenna málið við gagnaver, þar sem gagnaver hýsa gögn en Bitcoin-ver hýsa tölvur sem leysa formúlur.

Bjarni Brynjúlfsson var spurður af dómara málsins hvort ætti að kalla þetta gagnaver eða annað. Bjarni sagði að vissulega mætti færa rök fyrir því að um væri að ræða reikniver, en ekki gagnaver.

Aðameðferð málsins verður framhaldið í dag og lýkur á föstudag með munnlegum málflutningi saksóknara og verjenda




Fleiri fréttir

Sjá meira


×