Innlent

Lögreglan hefur ekki frumkvæði að rannsókn um meint pólitísk hrossakaup þingmanna

Jóhann K. Jóhannsson og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segist ekki hafa fengið formlega ábendingu frá forsætisnefnd Alþingis.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segist ekki hafa fengið formlega ábendingu frá forsætisnefnd Alþingis. Fréttablaðið/Ernir
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki fengið formlega ábendingu frá forsætisnefnd um að eitthvað saknæmt hefði átt sér stað við skipan í sendiherrastöður. Samtal þingmanna um meint pólitísk hrossakaup með sendiherrastöður náðist á upptöku og var gert opinbert í kjölfarið.

Lögreglan hefur aftur á móti fengið ábendingar frá borgurum landsins vegna málsins. Þetta segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á Höfuðborgarsvæðinu í samtali við fréttastofu en RÚV greindi fyrst frá þessu.

Lögfræðingur lögreglunnar hefur þó hlustað á upptökuna. Samkvæmt fréttum Stundarinnar  og DV sem unnar eru upp úr upptökunum kemur fram að Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Miðflokksins eigi að hafa greint félögum sínum frá því að Sjálfstæðisflokkurinn ætti inni hjá honum greiða fyrir að hafa skipað Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra í embætti sendiherra í Washington.

Inntur eftir viðbrögðum sagðist Gunnar Bragi hafa logið á upptökunni en þrátt fyrir þá staðhæfingu má heyra Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann Miðflokksins staðfesta frásögn Gunnars með því að segja að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi fylgt málinu eftir og að Gunnar Bragi ætti inni hjá Sjálfstæðismönnum að því er fram kemur á Stundinni.

„Við fyrstu sýn þá er sendiherrastöður undanþegnar auglýsingaskyldu þannig að við þyrftum þá að sjá hvernig þessum málum ber að hátta samkvæmt forsætisnefnd. Mér skilst á fjölmiðlum að forsætisnefnd ætli sér að fjalla um þetta mál svo við myndum væntanlega bíða ábendinga frá þeim,“ segir Sigríður.

„Við höfum ekki fjallað opinberlega um þetta mál. Þetta hefur rétt komið til tals en öll okkar þekking á þessu máli kemur frá fjölmiðlum þannig að við myndum vilja kynna okkur þetta betur áður en við tjáum okkur frekar um það,“ segir Sigríður.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata sagði, í Silfrinu í morgun, einboðið að ríkissaksóknari opnaði rannsókn á því hvort brot gegn 128. gr. almennra hegningarlaga, sem fjalla um brot í opinberu starfi, hafi verið framið með meintum pólitískum hrossakaupum þingmanna með sendiherraembætti.

Sjá nánar: Telur rétt að ríkissaksóknari opini rannsókn á því hvort lögbrot hafi verið framið


Tengdar fréttir

Telur rétt að ríkissaksóknari opni rannsókn á því hvort lögbrot hafi verið framið

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata telur einboðið að ríkissaksóknari opni rannsókn á því hvort þingmenn hafi brotið gegn 128. gr. almennra hegningarlaga, sem fjalla um brot í opinberu starfi, með meintum hrossakaupum þingmanna með sendiherraembætti en fullyrðingar þess efnis náðust á "Klaustursupptökunum“ svokölluðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×