Yfirvöld á Galapagoseyjum, sem tilheyra Suður-Ameríkuríkinu Ekvador, hafa lagt bann við kaupum og sölu á flugeldum á eyjaklasanum. Ástæðan er hið einstaka dýralíf eyjaklasans. BBC greinir frá.
Galapagoseyjar liggja í Kyrrahafi um 1.000km frá vesturströnd Ekvador. Dýralíf á eyjunum er einstakt og laða eyjarnar að sér þúsundir gesta á ári hverju vegna þessa. Náttúruverndarsinnar hafa kallað eftir því að flugeldar væru bannaðir vegna dæma um að dýr ókyrrist, fái hraðari hjartslátt og kvíða vegna flugeldasýninga.
Nú hafa kaup og sala á flugeldum verið bönnuð að undanskildum þeim flugeldum sem gefa ekki frá sér hljóð. Einnig hefur notkun einnota plasts verið bönnuð á eyjunum.
Lorena Tapia, ríkisstjóri Galapagoseyja sagði ákvörðunina gjöf til dýraverndar frá Ekvador og heiminum öllum. Undanfarin ár hefur þrýstingur aukist á yfirvöld að bæta umhverfisvernd á eyjunum vegna einstæðrar náttúru, á eyjunum finnast meðal annars ýmsar eðlur, selir og hinar frægu risaskjaldbökur.