Menning

Forsetinn sló jörðina upp í rjáfur

Jakob Bjarnar skrifar
Guðni Th kom óvænt við sögu í jólasýningu Þjóðleikhússins en Siggi Sigurjóns fór á kostum í leikgerð sem byggir á hinni þekktu kvikmynd Chaplins.
Guðni Th kom óvænt við sögu í jólasýningu Þjóðleikhússins en Siggi Sigurjóns fór á kostum í leikgerð sem byggir á hinni þekktu kvikmynd Chaplins. visir/Vilhelm/Þjóðleikhúsið
Ekki vildi betur til en svo, þegar heimurinn í líki risastórrar blöðru, var sendur út í sal meðal áhorfenda í Þjóðleikhúsinu, að hann sveif hátt í loft upp og festist uppi í rjáfri. Þetta var eftir að hinn öflugi forseti landsins, Guðni Th. Jóhannsson, sem sat á fremsta bekk, hafði slæmt til hans hendi. Forsetinn blakaði blöðrunni af slíkum krafti frá sér að hún sveif upp að hinu þekkta stuðlabergslofti álfahallarinnar og lagðist þar á ljósabrú.

Mikil stemming í Þjóðleikhúsinu

Mikil stemming var í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi þá er Einræðisherrann var frumsýndur. Jólasýning Þjóðleikhússins er hápunktur hvers leikárs og forsetinn á fremsta bekk. Hefð er fyrir því að gestir rísi úr sætum sínum þá er hann gengur í salinn.

Sigurður Sigurjónsson, sá ástsæli leikari, var á heimavelli í danskri leikgerð hinnar klassísku kvikmyndar Chaplins. Þó Sigurður eigi að baki sérlega glæsilegan feril á sviði sem og á hvíta tjaldinu má segja að þetta hlutverk sé eins og skrifað fyrir hann. Margir þekkja kvikmyndina og þá hið þekkta atriði þegar Chaplin í hlutverki einræðisherrans Hinkels bregður á leik með heiminn – þannig er þessi blaðra til komin.

Leiksigur Sigga

Sigurður hefur lengi verið aðdáandi Chaplins og fór hann með hlutverk einræðisherrans/rakarans áreynslulaust og án allrar tilgerðar. Sem er meira en segja það þegar um svo ýktar persónur er að ræða.

Helga Vala Helgadóttir, leikkona og þingmaður, var á frumsýningunni og hún telur að um leiksigur sé að ræða.

„Siggi vann þarna mikið þrekvirki enda á sviðinu, ýmist sem rakarinn eða einræðisherrann, allan tímann. Þá er það heilmikil kúnst að feta í fótspor sjálfs Chaplin sem allir þekkja og hafa skoðun á. Það er einfalt að detta í þann pytt að herma bara eftir, en Siggi gerði svo miklu miklu meira. Hann var rakarinn, var einræðisherrann og hjartað var þarna út í gegn. Þess vegna hló ég og grét og grét svo úr hlátri enda persónusköpunin einlæg og sönn,“ skrifar Helga Vala í stuttum leikdómi sem hún birtir á Fb-síðu sinni.

 

Sáum Einræðisherrann í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi. Siggi Sigurður Sigurjónsson vann þarna mikið þrekvirki enda á...

Posted by Helga Vala Helgadóttir on Thursday, December 27, 2018

Tengdar fréttir

Við þurfum að hlusta á þessa sögu

Sigurður Sigurjónsson leikur í Einræðisherra Chaplins sem er jólaleikrit Þjóðleikhússins. Segir einræðistilburði vera áberandi víða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×