Umræður um tillögu um vantraust á Theresu May forsætisráðherra hófust í breska þinginu nú síðdegis. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði May stýra „uppvakningsríkisstjórn“ og hvatti hana til að segja af sér. May hafnaði kröfu Verkamannaflokksins um að halda Bretlandi í tollabandalagi við Evrópusambandið.
Ríkisstjórn May galt afhroð í atkvæðagreiðslu um útgöngusamning hennar í þinginu í gærkvöldi. Samningurinn var felldur með 230 atkvæða mun og greiddi fjöldi þingmanna Íhaldsflokksins atkvæði gegn honum.
Corbyn lagði í kjölfarið fram vantrauststillögu og verða atkvæði greidd um hana nú síðdegis eða í kvöld. Þegar umræðurnar hófust sagði Corbyn að allar fyrri ríkisstjórnir hefðu sagt af sér hefðu þær beðið eins slæman ósigur og May gerði í gær.
„Þessi ríkisstjórn getur ekki stýrt og nýtur ekki stuðnings þingsins í mikilvægustu málunum sem landið okkar stendur frammi fyrir,“ sagði Corbyn.
May fullyrti að það væri þjóðinni ekki í hag að efna til nýrra kosninga á þessari stundu. Kosningar myndu enn auk sundrungu og ringulreið. Útilokaði hún einnig að halda áfram í tollabandalagi við Evrópu eftir útgönguna sem á að taka gildi 29. mars.
„Það sem ég vil sjá er það sem breska þjóðin kaus sér. Hún kaus að binda endi á frjáls för fólks, hún kaus sjálfstæða viðskiptastefnu, hún kaus að binda enda á lögsögu Sakamáldómstóls Evrópu. Það er upp á þetta þing komið að tryggja að við færum henni þetta,“ sagði May.

