Adamowicz, sem hefur gegnt borgarstjóraembættinu í tuttugu ár, er sagður hafa verið stunginn með hníf í hjartað og maga af 27 ára karlmanni. Gekkst hann undir fimm tíma aðgerð í nótt og sagði einn skurðlæknanna í morgun að hann sé með mikla innri áverka og þurfi á mikilli blóðgjöf að halda. Blóðgjafar í borginni hafa verið hvattir til að gefa blóð.
Síðar í dag fer fram samkoma þar sem beiting ofbeldis verður mótmælt.
Handtekinn á staðnum
Árásarmaðurinn var handtekinn á staðnum. Hann hefur áður afplánað dóm vegna afbrots sem hann kveðst saklaus af og kennir hann fyrrverandi stjórnmálaflokki borgarstjórans um málið. Borgarstjórinn var stunginn þar sem hann stóð á sviði á góðgerðarsamkomu í gær.„Halló! Halló! Ég heiti Stefan. Ég var fangelsaður en er saklaus. [Stjórnmálaflokkurinn] Borgaravettvangur pyndaði mig, þess vegna er Adamowicz dauður,“ á árásarmaðurinn að hafa hrópað eftir að hafa stungið borgarstjórann.
Adamowicz er fyrrverandi flokksmaður í Borgaravettvangi (PO), en hann á ekki tengjast máli árásarmannsins á nokkurn hátt.