Erlent

Fyrr­verandi yfir­maður dönsku öryggis­lög­reglunnar dæmdur í fangelsi

Atli Ísleifsson skrifar
Jakob Scharf var yfirmaður PET á árunum 2007 til 2013.
Jakob Scharf var yfirmaður PET á árunum 2007 til 2013. EPA/Erik Refner
Dómstóll í Danmörku dæmdi í dag Jakob Scharf, fyrrverandi yfirmann dönsku öryggislögreglunnar (PET), í fjögurra mánaða fangelsi fyrir að hafa brotið trúnað í bókinni Syv år for PET. Þá var hann dæmdur til að greiða 400 þúsund danskar krónur í sekt, rúmar sjö milljónir íslenskra króna.

DR  segir málið sögulegt og án fordæmis þar sem þetta sé í fyrsta sinn sem fyrrverandi yfirmaður PET hafi verið ákærður. Scharf var ekki í viðstaddur þegar dómur var kveðinn upp, en verjandi hans segir skjólstæðing sinn ekki hafa ákveðið hvort að dómnum verði áfrýjað.

Í bókinni Syv år for PET er fjallað um störf Scharf hjá PET, en hann var yfirmaður hennar á árunum 2007 til 2013. Morten Skjoldager skrifaði bókina, en hún byggir á eigin rannsóknum höfundar og viðtölum við Scharf.

Braut trúnað

Í dómorðum segir að með bókinni hafi Scharf brotið trúnað með frásögnum af starfsemi öryggislögreglunnar, samstarfsaðila og starfsaðferðir. Allt hafi þetta getað skaðað störf öryggislögreglunnar.

PET fékk á sínum tíma veður af útgáfu bókarinnar og fékk samþykkt lögbann á útgáfu hennar. Þrátt fyrir það birti blaðið Politiken bókina í heild sinni í sérstakri blaðaútgáfu 9. október 2016.

Saksóknarar fóru fram á að Scharf yrði dæmdur til sex til níu mánaða fangelsisvistar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×