Hugbúnaðarfyrirtækið Novomatic Lottery Solutions fækkaði í dag stöðugildum sínum á Íslandi og í Serbíu vegna „endurskipulagningar í rekstri samsteypunnar“, að því er fram kemur í tilkynningu frá Novomatic. 49 starfsmönnum fyrirtækisins var sagt upp á Íslandi í þessum aðgerðum en greint var frá því um helgina að starfsemi fyrirtækisins á Íslandi yrði lögð niður fyrir árslok 2019. Móðurfélag Novomatic hyggst þó stofna sitt eigið tæknisetur á Íslandi.
„Þessi endurskipulagning er hluti af áframhaldandi endurmótun stefnu NLS samsteypunnar og er ekki endurspeglun á hæfileikum þeirra starfsmanna sem sagt var upp. Þeir einstaklingar sem fóru frá okkur í dag eru allir hæfir og mikilsmetnir starfsmenn NLS,“ segir í tilkynningu Novomatic.
Þá muni stjórnendur fyrirtækisins gera allt sem í þeirra valdi stendur til finna starfsfólkinu ný hlutverk. Nokkrum starfsmönnum sem sagt var upp verður þannig boðið að halda áfram störfum til ársloka og þá hyggur móðurfélag fyrirtækisins á stofnun tækniseturs á Íslandi, þó ekki komi fram í tilkynningu hvenær það verður.
„Á Íslandi felur þessi hjálp í sér: að bjóða nokkrum einstaklingum áframhaldandi vinnu hjá NLS á Íslandi til loka 2019, að bjóða öðrum upp á ný tækifæri innan móðurfélags NLS (NOVOMATIC) sem hyggst stofna sitt eigið tæknisetur á Íslandi, og fyrir aðra starfsmenn var TeqHire með tvo ráðgjafa á staðnum sem tóku viðtöl og veittu ráðgjöf.“
Eins og áður segir var greint frá því um helgina að starfsemi Novomatic á Íslandi yrði lögð niður fyrir lok árs. Saga fyrirtækisins er á þá leið að íslenska fyrirtækið Betware var árið 2013 selt austurríska fyrirtækinu Novomatic. Novomatic, sem er einn stærsti framleiðandi tækja- og hugbúnaðar fyrir spilakassa í Evrópu, keypti 90 prósent af hlutafé Betware fyrir tvo til þrjá milljarða króna.
Þá var átján starfsmönnum fyrirtækisins á Íslandi sagt upp störfum í apríl á síðasta ári.
49 sagt upp hjá Novomatic í dag

Tengdar fréttir

Hópuppsagnir hjá Novomatic
Átján starfsmönnum sagt upp í vikunni. Hanna hugbúnað fyrir ríkisrekin lotterí. Fyrirséð að framtíðartekjur fyrirtækisins verða ekki jafn háar og gert var ráð fyrir. Novomatic LS keypti Betware árið 2013.

Starfsemi Novomatic á Íslandi lögð niður
Austurríska fyrirtækið Novomatic hefur ákveðið að leggja niður störf fyrirtækisins hér á landi sem byggðist á stoðum hugbúnaðarfyrirtækisins Betware.