Sport

Þyrlur og hundar hluti af víðtækri öryggisgæslu á Super Bowl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá Mercedes Benz leikvanginum sem hýsir Super Bowl leikinn í ár.
Frá Mercedes Benz leikvanginum sem hýsir Super Bowl leikinn í ár. Getty/Kevin C. Cox

Það tók tvö ár að setja saman öryggisáætlunina fyrir Super Bowl leikinn í Atlanta sem fer fram um næstu helgi.

Öryggismálin ættu því að vera í góðum málum í kringum leikinn sem dregur að sér mikinn fjölda fólks og um leið hættu á óeirðum, mótmælum eða jafnvel hryðjuverkum.

Lögreglan í Atlanta fær hjálp frá bæði ríkislögreglunni í Georgíufylki og Alríkislögreglu Bandaríkjanna við að halda í öllu í frið og spekt þessa viðburðaríku helgi í borginni.



 

Leikur New England Patriots og Los Angeles Rams fer fram á sunnudagskvöldið í beinni á Stöð 2 Sport en það er mikið í gangi í kringum leikinn þangað til. Það er búist við að meira en milljón manns komi til borgarinnar í tengslum við leikinn.

„Við erum tilbúin í allt, allt frá því að eiga við fulla og óstýriláta einstaklinga í það að þurfa að glíma við stórslys,“ sagði Carlos Campos, talsmaður lögreglunnar í Atlanta. Lögreglan gerir sér vel grein fyrir því að hryðjuverkasamtök gætu vissulega séð Super Bowl leikinn sem kjörið skotmark.



 

Allir lögreglumenn borgarinnar eru á tólf tíma vöktum fram yfir leik. Lögreglumennirnir verða á hestum, í bílum, á mótorhjólum, á tveimur jafnfljótum með hunda og meira að segja í þyrlum fljúgandi fyrir ofan svæðið. Það er engu til sparað.

Ellefu kílómetra grindverk hefur verið sett upp í kringum Mercedes Benz leikvanginn og engir nema fótgangandi aðilar með miða á leikinn komast inn fyrir það.

Allir gestir leiksins þurfa líka að fara í gegnum ítarlega öryggisskoðun og mega aðeins fara inn á völlinn með gegnsæja poka.



 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×