Erlent

Danskur vottur Jehóva í sex ára fangelsi í Rússlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Maður er skírður á samkomu votta Jehóva. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki.
Maður er skírður á samkomu votta Jehóva. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki. Vísir/EPA
Rússneskur dómstóll dæmdi danskan vott Jehóva í sex ára fangelsi fyrir að skipuleggja starfsemi bannaðra öfgasamtaka í dag. Dönsk stjórnvöld hafa mótmælt dómnum og hvatt Rússa til að virða trúfrelsi.

Dennis Christensen er 46 ára gamall byggingarstarfsmaður. Hann var handtekinn í maí árið 2017 á bænafundi í Oryol, um 320 kílómetrum suður af Moskvu. Dómstóll á svæðinu hafði lagt bann við starfsemi votta Jehóva árið áður, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Hæstiréttur Rússlands hefur síðan komist að þeirri niðurstöðu að vottar séu öfgasamtök og skipaði fyrir um að trúfélagið skyldi leyst upp um allt land. Eftir að Christensen var handtekinn hafa nærri því hundrað vottar verið ákærðir í Rússlandi. AP-fréttastofan segir að um tuttugu þeirra dúsi í fangelsi þar sem þeir bíða réttarhalda.

Christensen lýsti sig saklausan af ákærunni og sagðist aðeins hafa iðkað trú sína. Vísaði hann til rússnesku stjórnarskrárinnar sem tryggði trúfrelsi. Lögmaður hans segist ætla að áfrýja dómnum sem hann telur hluta af herferð stjórnvalda gegn trúfrelsi í landinu.

Rússnesk stjórnvöld hafa notað almennt orðalag í lögum um öfgasamtök til þess að ofsækja andófsmenn, pólitíska aðgerðasinna og trúarminnihluta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×