„Núverandi ríkisstjórn virðist ekki telja svo heldur taldi nauðsynlegt að lækka veiðigjöld á sama tíma og þessi þróun er að eiga sér stað. Það er auðvitað hjákátlegt að halda því fram að útgerðin geti ekki greitt eðlilegt verð fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind landsmanna á sama tíma og hún er að kaupa upp atvinnulífið,“ segir Þorsteinn á Facebooksíðu sinni.
Útgerðin að kaupa sig inn í aðrar atvinnugreinar
Þorsteinn leggur út af nýlegri umfjöllun Magnúsar Halldórssonar á Kjarnanum en þar kemur meðal annars fram að algjör kúvending hafi orðið á efnahagsreikningum helstu útgerðarfyrirtækja landsins. Hrunið reyndist mikil búbót fyrir útgerðina en þar hefur orðið mikil samþjöppun og hagræðing.„Sé horft til áranna 2010 og út árið 2017 þá hefur hagur útgerðafyrirtækja landsins vænkast um 421,3 milljarða króna. Eiginfjárstaða sjávarútvegsins var neikvæð, að meðaltali, í lok árs 2008 en var jákvæð í lok árs 2017 um 262 milljarða króna, samkvæmt upplýsingum sem Deloitte hefur tekið saman, og byggir á upplýsingum frá 87 prósent af sjávarútvegnum. Frá árinu 2010 hafa eigendur útgerðarfyrirtækjanna fengið 80,3 milljarða króna í arðgreiðslur,“ segir í grein Kjarnans. Þar kemur fram að útgerðin hafi verið að færa út kvíarnar, kaupa sig inn í aðrar atvinnugreinar enda hagnaður þar miklu meiri en annars staðar. Greinin sé í raun í annarri deild en aðrar atvinnugreinar.