Erlent

Stærsti fentanýlfundur sögunnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Efnin voru falin meðal mexíkóskra matvæla.
Efnin voru falin meðal mexíkóskra matvæla. Ap/Mamta Popat
Landamæraverðir á suðurlandamærum Bandaríkjanna greindu frá því í gærkvöldi að þeir hafi lagt hald á 114 kíló af lyfinu fentanýl en aldrei hefur verið lagt hald á meira magn lyfsins í einu lagi. Fyrra met hljóðaði upp á um 66 kíló.

Fentanýl er ein útbreiddasta tegundin af slíkum ópíóðalyfjum sem ollið hafa faraldri í Bandaríkjunum og víðar um heim síðustu ár. Talið er að um 16 þúsund manns hafi orðið fentanýl að bráð í Bandaríkjunum árið 2016. Landamæraverðir lýstu því á blaðamannafundi í gær að styrkleiki fentanýlsins sem fannst í gær hafi verið slíkur að það hefði hæglega geta orðið einhverjum að bana.

Söluandvirði efnanna sem haldlögð voru er þrjár og hálf milljón dollara. Í sömu smyglsendingu var einnig verið að smygla tæpum 180 kílóum af metamfetamíni. Mexíkóskir smyglhringir eru einna helst sagðir flytja fíkniefnin til Bandaríkjanna í fólksbílum eða í kerrum.

Fentanýlkílóin 114 sem fundust í gær voru þannig falin í leynilegu hólfi bifreiðar sem ætlað var að flytja mexíkósk matvæli yfir landamærin.

Donald Trump Bandaríkjaforseti þakkaði landamæravörðum fyrir vel unnin störf á Twitter-síðu sinni í gærkvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×