Norðurstrandarleiðin hefur verið í þróun í um tvö ár og er samstarfsverkefni margra aðila á Norðurlandi enda er leiðin um 800 kílómetra löng, nær í gegnum sautján sveitarfélög og 21 bæ eða þorp, allt frá Hvammstanga í vestri til Bakkafjarðar í austri.
Verkefnið gengur út á það að koma því þannig fyrir að ferðamenn geti auðveldlega komist að því hvert sé hægt að fara og hvað sé hægt að gera á svæðinu. Verkefnið fékk nýlega fimm milljón króna styrk úr Uppbyggingarsjóð Norðurlands eystra
„Þetta er í rauninni bara gott markaðsstæki. Ferðamannavegir eru orðnir vinsælir erlendis og við erum svolítið að stökkva á þann vagn. Þetta nýtist okkur til að auka dreifingu ferðamanna um Norðurland. Við erum að fá menn til að fara á svæði sem hafa verið minna sótt,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, sem heldur utan um verkefnið.
Laðar ferðamenn frá draumamarkaðinum aftur til Íslands
Arnheiður segist finna fyrir miklum áhuga ferðamanna á Norðurlandi um þessar mundir, ekki síst frá ferðamönnum sem þegar hafi komið til Íslands en vilji prófa eitthvað nýtt. Áhuginn á Norðurstrandarleiðinni sé mikill.Hvenær má búast við að ferðamenn geti farið að tölta eftir þessari leið?
„Við ætlum að opna 8. júní þannig að það er stutt í þetta. Það er gaman að þú segir tölta því að þetta er einmitt ekki Norðurstrandavegur vegna þess að við viljum að ferðamenn fari um og stoppi, fari út úr bílnum. Þeir geta þá byrjað í sumar og fundið sér staði sem er extra gott að sjá miðnætursólina, finna sér gönguleiðir og þar sem aðstaða er til staðar.