Umfjöllun: Stjarnan - Njarðvík 84-68| Stjarnan bikarmeistari í körfubolta karla 2019

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Vísir/Bára
Stjarnan er bikarmeistari í körfubolta karla árið 2019. Stjarnan vann í dag Njarðvík 84-68 í spennuleik. Stjörnumenn tóku völdin strax í upphafi leiks en Njarðvík komu þó með einhver áhlaup í seinni hálfleik. Forskot Garðbæingana fór þó aldrei undir þrjú stig og þetta var orðið mjög öruggt í lokinn. 

Fyrsti leikhluti var nokkuð jafn en Stjarnan var samt alltaf skrefi á undan. Brandon Rozzell sýndi strax í fyrsta leikhluta að hann var mættur til að sækja bikar, skoraði 8 stig og var gríðarlega ógnandi. Eini sem var að finna sig sóknarlega í liði Njarðvíkur var Mario Matasovic hann var með 8 stig. Eric Katenda leikmaður Njarðvíkur byrjaði leikinn hræðilega, spilaði rúmar 4 mínútur en náði samt að fá á sig þrjár villur. Stjarnan vann fyrsta leikhluta 23-18. 

Stjarnan byrjaði annan leikhluta miklu betur og Einar Árni þjálfari Njarðvíkur tók leikhlé eftir tæpar þrjár mínútur í stöðunni 28-21. Stjarnan hélt samt áfram og komust mest yfir 12 stigum í öðrum leikhluta. Njarðvík var ekki að finna taktinn sóknarlega allan fyrri hálfleik en það sést kannski best á að Elvar Már og Jeb Ivey, voru með 4 og 3 stig í hálfleik. Ægir Þór var sérstaklega áberandi í varnarleik Stjörnunnar en hann var oft að dekka Elvar og lét hann fara í mikið af erfiðum skotum án þess þó að brjóta á honum. Staðan í hálfleik var 41-32 en Njarðvík var að hitta skelfilega á tveggja stiga skotum í fyrri hálfleik eða 31,8%. 

Elvar Már Friðriksson og Ægir Þór Steinarsson í baráttunnivísir/bára
Njarðvík byrjaði seinni hálfleik miklu betur en Stjarnan. Eftir tæpar þrjár mínútur náðu þeir að minnka muninn niður í 46-43 og Arnar þjálfari Stjörnunnar tók leikhlé. Eric Katenda var í miklum villu vandræðum í fyrri hálfleik og spilaði bara fjórar mínútur. Hann kom heldur betur vel inn í þriðja leikhlutann en hann skoraði 10 stig. Þriðji leikhluti var gríðarlega jafn en eftir hann var staðan 60-57 fyrir Stjörnunni.

Garðbæingarnir komu miklu sprækari inn í fjórða leikhluta. Njarðvík gátu ekkert stoppað þá og síðan var vörnin frábær. Brandon Rozzell var frábær allan leikinn og fjórði leikhluti var enginn undantekning. Hann var með 10 stig, 2 stoðsendingar og var gríðarlega rólegur með boltann þegar á reyndi. Sóknarleikur Njarðvíkur var of æstur í fjórða leikhluta. Þeir voru að taka mjög fljót skot, frekar en að komast langt inn í sóknirnar sínar. Einungis 11 stig frá Njarðvík í fjórða leikhluta segja allt sem segja þarf, þeir náðu ekki að búa sér til nein góð skot eiginlega þeir þurftu á körfum að halda. 

Collin Pryor í baráttunnivísir/bára
Af hverju vann Stjarnan?

Stjarnan var betri liðið allan leikinn. Slakur þriðji leikhluti hjá Stjörnunni hleypti Njarðvík inn í leikinn en Stjarnan var einhvern veginn alltaf með þetta í hendi sér. Varnarleikur Stjörnunnar var frábær allan leikinn, að halda Elvari Má í 8 stigum er gríðarlegt afrek. 

Njarðvíkingarnir voru ekki nógu klókir undir lokinn. Þetta var jafn leikur með fimm mínútum eftir en síðan köstuðu þeir annað hvort boltanum frá sér eða tóku erfið skot. Það er töff þegar þessi skot heppnast en þetta er ekki leiðin til að ná í titla. 

Hverjir stóðu upp úr?

Brandon Rozzell var valinn maður leiksins og átti það heldur betur skilið. Hann skoraði 30 stig og bjó líka til mikið fyrir liðsfélaga sína sóknarlega. Í svona leikjum munar um að hafa svona mann í fjórða leikhluta og það verður gríðarlega áhugavert að fylgjast með honum í úrslitakeppninni. 

Ægir skoraði kannski bara 8 stig en spilaði samt frábæran leik. 8 stoðsendingar og frábær varnarleikur frá honum er stór hluti af ástæðunni fyrir að Stjarnan er bikarmeistari. Hlynur Bæringsson átti sömuleiðis flottan leik í vörn og sókn fyrir Stjörnuna, 13 stig,14 fráköst og hörku vörn er það sem þarf frá fyrirliðanum sínum í svona leik. 

Mario Matasovic átti flottan fyrri hálfleik fyrir Njarðvík en Hlynur náði að loka vel á hann í seinni hálfleik. Eric Katenda átti frábæran þriðja leikhluta en gerði lítið í hinum leikhlutunum. 

Hvað gekk illa?

Elvar og Ivey eru tvíeyki sem þarf að skila skilvirkum 40 stigum í svona leik til að Njarðvík geti unnið. Í kvöld skoruðu þeir samtals 20 stig og voru langt frá því að vera skilvirkir. Hrós á vörnina hjá Stjörnunni auðvitað en þeir geta báðir miklu betur. 

Vörnin hjá Njarðvík í fjórða leikhluta var mjög slök. Stjarnan gat eiginlega alltaf búið til gott skot og Rozzell komst gríðarlega oft inn í teig með boltann. 

Hvað gerist næst?

Hjá Stjörnunni geri ég ráð fyrir að það taki við mikil fagnaðarlæti. Ég geri ráð fyrir að það verði ágætis stemning á Dúllu-barnum í kvöld allavega. 

Ísland tekur á móti Portúgal í höllinni á fimmtudaginn. Mikilvægur leikur í baráttunni um sæti á Eurobasket 2021 sem allir íslenskir körfuboltaáhugamenn ættu að mæta á. 

Síðan mætast þessi lið í næstu umferð Dominos-deildarinnar 4. mars í leik sem verður í beinni á Stöð 2 Sport.  

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira