Enski boltinn

Vill banna börnum að skalla fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ung stelpa að skalla bolta.
Ung stelpa að skalla bolta. Getty/Shawn Patrick Ouellette
Ryan Mason þurfti að leggja fótboltaskóna á hilluna eftir að hafa fengið slæmt höfuðhögg í leik á móti Chelsea í ensku úrvalsdeildinni. Nú ætlar hann að berjast fyrir reglubreytingu í barnafótboltanum í Englandi.

Ryan Mason höfuðkúpubrotnaði í leik Hull og Chelsea í janúar 2017 og þurfti að leggja skóna á hilluna þrettán mánuðum síðar vegna áhrifa frá höfuðhögginu.

Nú vill hann að það verði bannað að skalla boltann í fótboltaleikjum barna.

Ryan Mason meiddist þegar hann fór upp í skallaeinvígi við Chelsea manninn Gary Cahill en  Cahill missti af boltanumm og skallaði beint í gagnaugað á Mason.





Svona skallabann þekkist í Bandaríkjunum þar sem bandaríska knattspyrnusambandið bannar börnum ellefu ára og yngri að skalla boltann. Þar eru líka takmarkanir í gildi fyrir börn ellefu til þrettán ára.

„Þegar sjö eða átta ára gömul börn eru að skalla bolta þá er heili þeirra og höfuðkúpa ekki fullþroskuð. Það gæti skaðað þau til frambúðar,“ segir Ryan Mason í viðtali við BBC.

„Ég horfi á suma krakka þegar þau eru að skalla boltann og tækni þeirra er kolröng. Með því setja þau enn meiri pressu á heilann sinn. Ég tel að börn ættu ekki að vera skalla alvöru fótbolta,“ sagði Mason.





„Því eldri sem þú verður þeim mun betri verður skallatæknin. Kannski væri réttast að kenna rétta skallatækni með því að nota svampbolta í byrjun,“ sagði Mason sem er nú yngri flokka þjálfari hjá Tottenham.

„Ég er allavega á því að það gerir börnum ekki gott að vera alltaf að skalla boltann,“ sagði Mason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×