Enski boltinn

Cardiff mun koma heiðarlega fram við Nantes varðandi greiðslu á kaupverði Sala

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Fótboltaheimurinn hefur minnst Emiliano Sala síðustu vikur
Fótboltaheimurinn hefur minnst Emiliano Sala síðustu vikur vísir/getty
Stjórnarformaður Cardiff, Mehmet Dalman, segir félagið muni borga kaupverðið á Emiliano Sala til Nantes ef félagið er skuldbundið til þess.

Sala fórst í flugslysi í lok janúar þegar hann var á leiðinni frá Nantes til Cardiff, velska félagið hafði fest kaup á honum fyrir 15 milljónir punda nokkrum dögum áður.

Cardiff hefur enn ekki borgað Nantes þrátt fyrir ítrekaðar kröfur frá franska félaginu sem íhugar nú að fara fyrir dómstóla.

„Ef við erum samningsbundnir til þess að borga þeim þá munum við að sjálfsögðu gera það, við erum heiðarlegt félag,“ sagði Dalman við BBC. Það er hins vegar smá vafi á því hvort Cardiff þurfi að greiða kaupverðið.

„Ef við erum ekki samningsbundnir til þess, þá geta menn ekki búist við öðru en að ég, sem stjórnarformaður, hugsi um hvað sé best fyrir félagið. Það er það sem við erum að gera.“

„Við erum enn að afla okkur upplýsinga. Þegar við komumst á þann stað að við séum með allar þær upplýsingar sem þarf, þá munum við setjast niður með Nantes og klára þetta mál.“

Þegar gengið var frá kaupunum var samþykkt að Cardiff myndi greiða milljónirnar fimmtán á þremur árum, en fyrsti reikningurinn var þegar farinn frá Nantes.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×