Erlent

Mandela fagnaði frelsinu

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Nelson Mandela.
Nelson Mandela. vísir/getty
Á þessum degi árið 1990 lauk 27 ára fangelsisvist mannréttindafrömuðarins Nelsons Mandela. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í Suður-Afríku þegar Mandela fagnaði frelsi með konu sinni, Winnie Madikizela, á götum Jóhannesarborgar. Eitt af fyrstu verkum Mandela var að ávarpa fjöldasamkomu á Soccer City-leikavanginum í borginni en talið er að um 100 þúsund manns hafi verið á staðnum.

Fangelsun Mandela má rekja til baráttu hans gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku. Hann var handtekinn ásamt öðrum aðgerðasinnum árið 1962 og var ári seinna dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir landráð. Saksóknari hafði farið fram á dauðadóm yfir Mandela og félögum hans.

Mandela var vistaður í fangelsinu á Robben-eyju á árunum 1964 til 1982, eða þangað til að hann var fluttur í Victor­ Verster-fangelsið.

Barátta Mandela fyrir réttindum blökkufólks í Suður-Afríku, handtaka hans og endanleg fangelsun vakti heimsathygli og ekki síður þær fregnir sem bárust af þeirri hörmulegu meðferð sem Mandela sætti á Robben-eyju.

Um það leyti sem frelsun Mandela var í nánd var mörgum orðið ljóst að aðskilnaðarstefnan væri úrelt fyrirkomulag. F.W. de Klerk, sem gegndi tímabundið embætti forseta, lýsti þessari skoðun. Hann beitti sér fyrir frelsun Mandela, sem síðan varð að veruleika 11. febrúar árið 1990.

Árið 1994 vann flokkur Mandela, Afríska þjóðarráðið, afgerandi sigur í almennum þingkosningum og var Mand­ela útnefndur forseti í kjölfarið og varð þar með fyrsti lýðræðislega kjörni forseti landsins. Mandela átti eftir að beita sér af miklum krafti við að afnema aðskilnaðarstefnuna og við að koma á friði milli svartra og hvítra í Suður-Afríku. Mandela lést 5. desember árið 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×