Innlent

Dómsmálaráðherra segir frumvarp ekki auka rými fyrir hatursorðræðu

Sighvatur Jónsson skrifar
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra. Vísir/Hanna
Frumvarp Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra, sem hún hefur lagt fram á Alþingi um gildissvið laga um hatursáróður, hefur sætt gagnrýni. Sigríður vísar gagnrýninni á bug og segir að með frumvarpinu sé áréttað að það er ekki nóg að ummæli séu vitleysisleg, heldur þurfi þau líka að vera til þess fallin að kynda undir ofbeldi eða hatri á manni eða mönnum, svo að lögin eigi við þau.

Sigríður segir að þingið hafi haft til skoðunar í mörg ár hvernig hægt væri að tryggja með betri hætti tjáningarfrelsi og vernd manna í þeim efnum. Breyting sem gerð var á 233. gr. a. almennra hegningarlaga árið 2014 hafi þrengt tjáningarfrelsið um of.

„Ég er mjög sammála því, ég held að það þurfi að gæta að því að frelsi manna til orðs verði ekki þannig að það sé hægt að hafa efasemdir um það að tjáningarfrelsið ríki í raun,“ segir Sigríður.

Samkvæmt frumvarpinu er það gert að skilyrði að háttsemi á borð við opinbert háð eða smánun verði að vera til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun svo að varði við lög. Gagnrýnendur frumvarpsins segja að með því sé verið að auka rými fyrir hatursorðræðu. Sigríður segir svo ekki vera.

„Friðhelgi einkalífsins og æra manna sem er varin með ákvæðum um friðhelgi einkalífsins til dæmis, hún stendur áfram óbreytt,“ segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×