Bíó og sjónvarp

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin í Reykjavík árið 2020

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Stórleikarinn Ralph Fiennes á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum í fyrra en þá hlaut hann sérstök heiðursverðlaun hátíðarinnar.
Stórleikarinn Ralph Fiennes á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum í fyrra en þá hlaut hann sérstök heiðursverðlaun hátíðarinnar. vísir/getty

Verðlaunahátíð Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna verður haldin í Hörpu í Reykjavík í desember árið 2020.



Frá þessu er greint í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu en í desember síðastliðnum var greint frá því að Reykjavíkurborg og íslenska ríkið hefðu sótt um að halda hátíðina hér á landi.



Í tilkynningu ráðuneytisins segir að um samstarfsverkefni á milli borgarinnar og ríkisins sé að ræða. Viðræður við Evrópsku kvikmyndaakademíuna hafa staðið yfir í nokkurn tíma en tvær aðrar borgir sóttu um að halda hátíðina.



Stofnað var til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna árið 1988 og er megintilgangur þeirra að efla og vekja athygli á evrópskri kvikmyndagerð. Er hátíðin haldin annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum Evrópu.



„Hátíðin hefur laðað til sín erlenda gesti víða að úr kvikmyndaheiminum og vel á annað hundrað erlenda blaðamenn. Því má búast við að hátíðin í Reykjavík hljóti mikla umfjöllun og stuðli að öflugri kynningu og markaðssetningu á Íslandi og Reykjavík sem ákjósanlegum áfangastað ferðamanna og tökustað fyrir kvikmyndir. Þá mun hátíðin beina athygli að íslenskri kvikmyndagerð og menningu,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.



Íslendingar hafa nokkrum sinnum hlotið Evrópsku kvikmyndaverðlaunin. Hilmar Örn Hilmarsson fékk verðlaun fyrir bestu tónlistina í kvikmyndinni Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson og árið 2000 var Björk Guðmundsdóttir hlutskörpust í flokki leikkvenna fyrir hlutverk sitt í mynd Lars von Trier, Dancer in the Dark.



Björk hlaut einnig áhorfendaverðlaunin það ár fyrir leik sinn og Ingvar E. Sigurðsson hlaut áhorfendaverðlaun fyrir leik í Englum alheimsins í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar.



Hátíðin fór fram í Sevilla á Spáni á síðasta ári en hún hefur einnig farið fram í London, París, Róm, Barcelóna, Varsjá, Kaupmannahöfn, Tallin, Möltu, Riga og Wroclaw, svo dæmi séu nefnd.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×