Enski boltinn

Aron og Gylfi mætast í fimmta sinn í kvöld

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Aron eltir Gylfa í fyrri leik liðanna í vetur.
Aron eltir Gylfa í fyrri leik liðanna í vetur. NordicPhotos/Getty
Það verður Íslendingaslagur á Englandi í kvöld þegar Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardiff taka á móti Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Everton í 28. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Það munar átta stigum á liðunum fyrir leik kvöldsins en Cardiff­ getur lyft sér í bili frá fallsæti með sigri í kvöld. Til þess þarf Aron Einar Gunnarsson að hafa betur gegn Gylfa í fyrsta sinn þegar þeir mætast sem andstæðingar á vellinum.

Þetta verður í fimmta sinn sem Gylfi Þór og Aron Einar, sem hafa leikið hlið við hlið inn á miðju íslenska landsliðsins undanfarin ár, mætast sem andstæðingar á Englandi og í annað sinn á þessu tímabili. Til þessa hafa lið Arons Einars ekki riðið feitum hesti frá þessum leikjum.

Gylfi Þór hefur haft betur í öllum fjórum viðureignunum til þessa, tvívegis með Reading gegn Coventry og síðar með Tottenham og Everton í ensku úrvalsdeildinni.

Gylfi reyndist hetja Everton síðast þegar hann mætti Aroni Einari undir lok nóvember þegar hann skoraði sigurmark Everton í 1-0 sigri á Goodison Park.

Eftir það hefur gengi liðanna snúist við og ættu leikmenn Cardiff að vera nokkuð vongóðir um að þeir geti náð í hagstæð úrslit þegar liðin mætast í kvöld. 

Í þeim fjórtán leikjum sem Everton hefur leikið síðan Gylfi skoraði sigurmarkið í fyrri leik liðanna hefur Everton aðeins unnið þrjá þeirra, tapað níu og gert tvö jafn­tefli sem hefur skilað liðinu ellefu stigum. Er það sex stigum minna en Cardiff hefur nælt í á sama tíma og hafa aðeins tvö lið í deildinni, Fulham og Huddersfield, fengið færri stig í síðustu fjórtán leikjum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×