Erlent

Neyðaraðstoð komin inn í Venesúela

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mannúðaraðstoð er nú á leið til fjölda Venesúelabúa.
Mannúðaraðstoð er nú á leið til fjölda Venesúelabúa. Ivan Valencia/AP
Fyrstu farmar hjálpargagna fyrir íbúa Venesúela eru komnir inn í landið í gegnum landamæri landsins við Brasilíu. Juan Guaidó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar og yfirlýstur forseti landsins, greindi frá þessu á  Twitter fyrir stundu.

Þá munu flutningabílar sem flytja hjálpargögn í tonnatali frá Kólumbíu verða affermdir á landamærum Kólumbíu og Venesúela og gögnin flutt með handafli yfir landamærin en ekki liggur fyrir hvort venesúelski herinn, sem er undir stjórn forsetans Nicólás Maduro, muni hleypa gögnunum í gegn.

„Venesúelabúar athugið! Það er hér með formlega tilkynnt að fyrstu farmar mannúðaraðstoðargagna hafa þegar komið inn fyrir landamæri okkar við Brasilíu. Þetta er mikið afrek, Venesúela! Við höldum áfram,“ tísti hinn yfirlýsti forseti sem nýtur stuðnings ýmissa ríkja og er viðurkenndur forseti landsins af mörgum þeirra, meðal annars Bandaríkjunum. 

Mörg þekkt nöfn stjórnmálanna, bæði í Suður- og Norður-Ameríku hafa hvatt til þess að hjálpargögnunum verði hleypt í gegn. Til að mynda kallaði Hillary Clinton, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, eftir því að mannúðaraðstoð yrði hleypt yfir landamærin með friðsælum hætti. Ivan Duque, forseti Kólumbíu, hefur þá krafist þess að hjálpargögnin fái að fara í gegn um landamærin og sagði að annað yrði brot á mannréttindum og mögulegur glæpur með tilliti til mannréttindalaga.

John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, hvatti einnig til þess á Twitter-síðu sinni að hjálpargögnunum yrði hleypt í gegn. Þar nýtti hann tækifærið til þess að ítreka stuðning Bandaríkjanna við Guaidó og kallaði hann forseta landsins, auk þess sem hann sagði Maduro og fylgismenn hans vera „þjófagengi.“


Tengdar fréttir

Lofar því að neyðaraðstoð berist

Juan Guaido sjálfskipaður leiðtogi Venesúela fullvissaði tugþúsundir stuðningsmanna sinna á fjöldafundi í gærkvöldi að hjálparaðstoð muni berast til landsins, þrátt fyrir að Maduro forseti hafi hingað til komið í veg fyrir birgðaflutningana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×