Forsætisráðherrann Jacinda Ardern sagði strax eftir árásina á föstudag að löggjöfinni yrði að breyta og svo virðist sem hendur hafi verið látnar standa fram úr ermum. Ardern sagði að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun að lögin verði kynnt í heild sinni fyrir 25. mars næstkomandi.
Hún sagði samstöðu um málið meðal ríkisstjórnarflokkanna og það að draga þyrfti úr aðgengi fólks að skotvopnum eins og Brenton Tarrant notaði til ódæðisins. Winston Peters, aðstoðar forsætisráðherra og leiðtogi New Zealand First flokksins, sem í fyrstu lýsti yfir andstöðu sinni við hert lög varðandi skotvopnaeign, segist nú styðja forsætisráðherrann að fullu, samkvæmt AFP fréttaveitunni.
Árásarmaðurinn var með byssuleyfi í Nýja Sjálandi og átti fimm skotvopn sem hann komst yfir með löglegum leiðum.
Mike Bush, lögreglustjóri, segir lögregluna sannfærða um að Tarrant hafi verið einn að verki. Hins vegar kæmi til greina að hann hefði verið studdur af öðrum aðilum og verið væri að rannsaka það.